Mikil svik við neytendur

Til þess að fá lífræna vottun á snyrtivörum þurfa framleiðendur að fara í gegnum strangt vottunarferli hjá viðurkenndri vottunarstofu með tilheyrandi kostnaði. Færst hefur í aukana að íslensk fyrirtæki markaðssetji og selji snyrtivörur með merkingunni „lífrænt“ án þess að vera með þar til gerða vottun. Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Villimeyjar er afar ósátt við þróunina og segir það bæði ómerkja vottunarmerkið og vera blekkingu við neytendur.

„Verst í þessu finnst mér blekkingin við neytandann, við stöndum fyrir lífræna framleiðslu þar sem allir grunnar og allt aðkeypt efni hefur tilbæra vottun en síðan sér maður vörur sem markaðssettar eru sem lífrænar og eru ekki með vottun og geta þar af leiðandi innihaldið skordýraeitur og önnur óæskileg kemísk efni. Almenningur veit oft ekki muninn á lífrænu eða náttúrulegu eða hvað stendur á bakvið en það skiptir miklu máli að neytendur viti um allt ferli vörunnar frá upphafi til enda. Hættulegast finnst mér þegar fólk er að bera snyrtivörur á börnin sín eða sjálft sig í góðri trú og síðan er kannski fullt af slæmum efnum fyrir líkamann í þessum vörum,“ segir Aðalbjörg sem er með tvær vottanir, eina vottun á landssvæðið hjá sér og aðra á vinnsluna.

Group mynd ensk rett 1


Mikill kostnaður og strangar reglur

Allir aðkeyptir grunnar sem Villimey nýtir í vörur sínar þurfa að vera lífrænt vottaðir, til þess þarf að sýna öll skjöl og fara eftir ströngustu reglum á hverju ári til þess að fyrirtækið geti haldið í lífræna vottun.

„Þetta er heilmikil aukavinna og heftandi að vissu leyti að vera með lífræna vottun. Maður fær ekki endilega lífrænt vottað hráefni sem maður myndi helst vilja. Einnig er rekjanleikinn líka tímafrekur í þessu ferli en það er hægt að rekja niður til grunna, bæði dagsetningu og landssvæði þar sem jurtirnar eru týndar á. Í mínum huga ómerkir þessi villandi markaðssetning á snyrtivörum vottunarmerkið, það er, að allir geti notað þessar fullyrðingar og ég fer að hugsa til hvers ég sé að standa í þessu,“ segir Aðalbjörg og talið berst að vottunarferlinu sjálfu:

„Mig langar að halda þessu áfram en ég ræð ekki við þetta lengur. Það er einfaldlega of stór biti fyrir mig að halda vottuninni við. Kostnaðurinn er alltof hár sem skilar sér engan veginn. Aðkeyptu hráefnin hjá mér eru þrisvar sinnum dýrari en þau sem eru ekki með vottun og ég er að keppa við framleiðendur sem selja vörur sínar með lífrænum merkjum án vottunar og í sumum tilfellum á hærra verði en ég get gert svo það er augljóst að það sitja ekki allir við sama borð.“