Ný skýrsla frá hugveitunni Tænketanken Hav í Danmörku sýnir að það þarf að taka þúsundir hektara úr ræktun ef Danmörk á að tryggja gott vistfræðilegt ástand á vatnasvæðum sínum. Niðurstaða úr skýrslunni er sú að minnsta kosti verður að hætta rekstri á tíundu hverri bújörð ef Danmörk á að ná markmiði sínu um að endurheimta hreint vatnsumhverfi.
“Ástand hafsins er skelfilegt. Við sjáum nú þegar verulega og sögulega súrefnisþurrð á strandsvæðum. Það er þörf á brýnum aðgerðum,” segir Liselotte Hohwy Stokholm, forstjóri Hugveitunnar Hav, í samtali við Politiken.
Ábyrgð Dana að viðhalda góðu ástandi
Aðeins fimm af rúmlega hundrað fjörðum og innsjó eru í góðu ástandi og endurtekin súrefnisþurrð stafar einkum af losun köfnunarefnis en stór hluti þess er umframáburður frá túnum. Sum dönsk strandvatnasvæði (sérstaklega opnu svæðin) einkennast af alþjóðlegum næringarefnaframlögum, en hugveitan leggur áherslu á að það sé enn á ábyrgð Dana að ná góðu vistfræðilegu ástandi.
Losun köfnunarefnis í danskt sjávarumhverfi var að meðaltali 56.300 tonn á ári á árunum 2016 til 2018, sem er töluvert yfir 38.300 tonna mörkum, sem teljast vera viðmiðunarmörk ef markmið um gott vistfræðilegt ástand á að nást. Dregið var úr losun köfnunarefnis um u.þ.b. 40 prósent á tímabilinu 1990-2000 en undanfarin 20 ár hefur losun ekki minnkað verulega.
Nokkrir valkostir í stöðunni
Skýrsla hugveitunnar sýnir einnig að jafnvel þótt kröfur stjórnvalda um aukna aflauppskeru og votlendi gangi eftir sem skyldi, þá verður landbúnaður samt að hætta að rækta allt að 300.000 hektara af samanlögðum 2,6 milljónum hekturum ræktaðs lands og jafnvel þá er líklegt að of mikið köfnunarefni losni.
Það er því nauðsynlegt að beita hagstjórnartækjunum eða huga að enn meiri landtöku, skrifar hugveitan. Meginreglan um að mengandi þurfi að greiða fyrir útblástur sinn í formi skatts er valkostur. Annar kostur gæti verið að láta setja á efri mörk kvóta hversu mikið landbúnaður á einstöku vatnasvæði má losa.
Auk þess geta svæðis- og verkefnastyrkir auk svokallaðra uppboðstengdra styrkja, þar sem hver og einn bóndi metur sjálfur hvað það muni kosta að gera ákveðna breytingu orðið hvati til að draga úr losun köfnunarefnis.
„Traust, faglegt innlegg“
Í skýrslunni er einnig minnst á skógrækt sem tæki og að aukin hreinsun skólps geti verið nauðsynleg, sérstaklega á vatnasvæðum þar sem aðrar aðgerðir eru ekki mögulegar. Aðgerðin hefur þó tiltölulega mikinn kostnað í för með sér en getur verið nauðsynleg lausn á ákveðnum sviðum. Magnus Heunicke (S) umhverfisráðherra landsins lýsir skýrslunni sem „traustu faglegu innleggi“.
“Ég er algjörlega sammála því að landbúnaður ætti að taka minna pláss og náttúran að hafa meira pláss og veita þannig endurnýjað súrefni í vatnaumhverfið sem er undir álagi. Að taka umtalsvert meira landbúnaðarland er eitt af verkfærunum og hluti af því sem við ræðum í þinginu næstu vikurnar,“ segir hann í skriflegri umsögn til Politiken.
/okonu.dk
/politiken.dk