Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í þriðja sinn

Lífræni dagurinn verður haldinn hátíðlegur í þriðja sinn laugardaginn 21. september frá klukkan 11:00-15:00 víðsvegar um landið. Þá munu framleiðendur opna dyr sínar og á kaffihúsinu Á Bistró í Elliðaárdal verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla aldurshópa.

Bændurnir í Yrkju, Syðra-Holti, Svarfaðardal, Sólbakka garðyrkjustöð, Ósi í Hörgársveit, Móðir Jörð í Vallanesi á Egilsstöðum og Búland, kúabýli á Hvolsvelli munu opna dyr sínar fyrir almenningi þennan dag og sýna landsmönnum hvernig ræktun og framleiðsla fer fram hjá þeim.

Á kaffihúsinu Á Bistró í Elliðaárdal verður, í samstarfi við Lífrænt Ísland og VOR (Verndun og ræktun), boðið upp á rétti nær alfarið úr íslenskum lífrænum hráefnum ásamt því að framleiðendur kynna vörur sínar. Þar að auki verður fyrirlestraröð í upphafi dagsins, afþreying fyrir börn og listaverk úr lífrænum hráefnum, eftir listakonuna Antje Taiga Jandrig, afhjúpað.