Mikilvægt verkfæri fyrir greinina í heild

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, bóndi í Breiðargerði í Lýtingsstaðahreppi og formaður VOR (Verndun og ræktun), fagnar því að aðgerðaráætlun til eflingar lífrænnar framleiðslu hafi litið dagsins ljós. Þrátt fyrir að ýmis markmið í áætluninni hefðu mátt vera metnaðarfyllri að hennar sögn þá eru þetta merk tímamót fyrir lífræna ræktun á Íslandi.

„Þetta er stórt og mikilvægt skref fyrir okkur öll. Um er að ræða fyrstu áætlun stjórnvalda af þessu tagi og hér hefur því verið tekið skref sem mörg telja löngu tímabært. Reynslan frá öðrum löndum hefur sýnt að ein grunnforsenda vaxtar lífrænnar framleiðslu er að stjórnvöld sýni vilja og stuðning í verki. Markmiðin hefðu gjarnan mátt vera enn metnaðarfyllri, til dæmis hvað hlutfall vottaðs landbúnaðarlands varðar en engu að síður er um góða byrjun að ræða. Nú er mikilvægast að unnið verði samkvæmt áætluninni, hún yfirfarin og uppfærð reglulega og markmið hennar fjármögnuð og framkvæmd sem fyrst,“ segir Elínborg Erla og bætir við:

„Lífræn ræktun er hringrásarhagkerfi sem hefur augljósan samhljóm með stefnu stjórnvalda og heimsins alls í umhverfismálum. Einn helsti styrkleiki lífrænt vottaðrar framleiðslu er ramminn og eftirlitið sem eru mikilvægt verkfæri gegn grænþvotti, en slík afvegaleiðing er vaxandi vandamál nútímans. Lífræn framleiðsla er þannig mikilvægt verkfæri í baráttunni við hnattræn vandamál í umhverfismálum og augljóst skref í rétta átt að vinna yfirlýst að eflingu hennar. Í lífrænni ræktun og framleiðslu, þeirri þekkingu sem þegar er til staðar og mannauðnum innan greinarinnar eru mikil verðmæti fólgin og ég bind miklar vonir við að áætlunin geti orðið mikilvægt verkfæri til að viðhald þeim verðmætum og auka, samhliða vexti greinarinnar í heild.“