Lífræn norsk matvæli í forgangi

Nýverið var samstarfsverkefni fjölmargra samtaka úr landbúnaði sett á laggirnar í Noregi undir yfirskriftinni Landbrukets Økoløft sem hefur það markmið að fá fleiri bændur til að veðja á lífræna framleiðslu og til að auka veltu og úrval af norskum, lífrænum vörum á markaði. Markmiðið er að hvetja bændur, verslunina, stóreldhús og neytendur til að rækta og borða meira af norskum lífrænum matvælum.

Norsk stjórnvöld hafa sett það markmið að auka framleiðslu á lífrænum vörum þar sem eftirspurn er en það sem hefur vantað eru vörur sem framleiddar eru í Noregi. Meiri velta og eftirspurn er nauðsynleg til þess að bændur sjái sér hag í því að stunda lífræna framleiðslu. Önnur rök fyrir því að fara út í lífræna framleiðslu snúa að dýravelferð, sjálfbærni og umhverfisvænni rekstri.

31668 landbrukets okoloft logo black

Til að byrja með verða hátt í 40 bændur valdir til að vera hvatningarbændur sem munu deila sinni kunnáttu og reynslu með starfsbræðrum sínum og -systrum í greininni. Hvatningarbændurnir munu taka þátt í fundum, halda fyrirlestra, fara í heimsóknir á sveitabæi og sýna i verki hvað lífrænn landbúnaður snýst um. Einnig verða allir aðilar í virðiskeðjunni virkjaðir betur eins og stjórnmálamenn, verslanir, matreiðslufólk, stóreldhús og fleiri.

Í dag eru markmið um að framleiða lífræn matvæli samkvæmt eftirspurn markaðarins. Samtök lífrænna bænda í Noregi segja að þetta markmið ætti að vera 25 prósent á meðan norsku Bændasamtökin hafa bókað að 10 prósent af öllum framleiddum matvælum í Noregi eigi að vera lífrænt ræktuð. Samstarfsverkefnið er í eigu Økologisk Norge en að því koma átta félög og ríkisvaldið í Noregi.

/Myndir: Økologisk Norge