Fyrirmyndarverkefni sem vatt upp á sig

Handhafi evrópsku lífrænu verðlaunanna 2024 í flokki landssvæða er Suður-Savo í Finnlandi en undanfarin 40 ár hefur þar verið byggt upp sterkt samstarf milli bænda, vísindafólks og bæjarstjórna. Á svæðinu eru 200 bóndabýli þar sem stunduð er lífræn framleiðsla en einnig er þar að finna lífrænu rannsóknarmiðstöðina í Finnlandi. Taina Harmoinen, framkvæmdastjóri matvælaþróunarfélagsins Ekoneum í Suður-Savo, upplýsti Lífrænt Ísland um tilurð verkefnisins og hvernig það hefur þróast um áratugaskeið.


Hvenær hófst verkefnið?

Verkefnið okkar spannar yfir 40 ára matvælaþróun í lífrænni ræktun ásamt mikilli samvinnu. Seint á áttunda áratugnum hófu fyrstu lífrænu bændurnir framleiðslu og stofnuðu sameiginlegt félag bænda og neytenda til að koma framleiðsluaðferðinni áfram. Kerfisbundin þróun lífrænnar framleiðslu í Suður-Savo hófst á níunda áratugnum á sama tíma og sett var af stað visthéraðsverkefni fyrir svæðið.

Einn þekktasti hvatamaður og frumkvöðull lífrænnar ræktunar í Suður-Savo er án efa hinn frægi ópersöngvari Martti Talvela, (1935-1989). Martti Talvela og kona hans, Annukka, höfðu séð á ferðum sínum um heiminn, þar sem Martti kom fram, hvernig hefðbundinn landbúnaður hafði haft áhrif á náttúru og jarðveg í Bandaríkjunum þegar kom að jarðvegseyðingu, rykstormum og notkun vaxtarhormóna sem dæmi. Í Þýskalandi og Sviss uppgötvuðu þau aðrar leiðir til að stunda landbúnað og hófu lífræna sauðfjárframleiðslu í Suður-Savo snemma á níunda áratugnum.

Soil exploration photo brita suokas

Hversu margir taka þátt?

Uppbygging lífrænnar framleiðslu í Suður-Savo hefur byggst á víðtæku samstarfi ólíkra aðila. Fjölmargir mismunandi rekstraraðilar sinna rannsóknum, þjálfun og ráðgjafarverkefnum til að þróa búskaparhætti, frekari vinnslu og markaðssetningu afurða ásamt því að framleiða og dreifa upplýsingum um lífrænar vörur til neytenda. Finnska lífræna rannsóknastofnunin var stofnuð árið 2013 að frumkvæði og með öflugum stuðningi frá aðilum í Suður-Savo-héraðinu. Það er sérfræðinet sem starfar á vegum háskólans í Helsinki og náttúruauðlindastofnunarinnar í Finnlandi. Stofnunin stuðlar að lífrænni matvælaframleiðslu og neyslu í allri fæðukeðjunni. Stofnunin rekur mörg lífræn matvælarannsóknarverkefni á svæðinu, á landsvísu og á alþjóðavettvangi.

Hvaða áhrif hefur verkefnið haft fyrir bændur?

Þróun lífrænnar framleiðslu er mjög sýnileg í frumframleiðslu Suður-Savo. Í upphafi níunda áratugarins voru innan við tíu lífrænir bændur á svæðinu en nú eru þeir orðnir 200 talsins. Bændur eru flottir frumkvöðlar sem hafa lagt sitt af mörkum til að þróa lífræna framleiðslu. Árið 2023 voru 12.400 hektarar af lífrænu ræktunarlandi sem er 18% af ræktunarlandi héraðsins. Finnska meðaltalið er 14%. Í sveitarfélaginu Juva, þar sem lífrænar rannsóknir hófust, er hlutur lífrænna svæða allt að 40%, sem sýnir kraftinn í fordæminu og árangur áratuga starfs. Árið 2023 var lífræn búfjárframleiðsla á 56 bæjum eða á um 30% búanna, aðallega mjólkurkýr, nautgripir og sauðfé.

Einn af hverjum tíu bændum í Suður-Savo er lífrænn framleiðandi. Auk bænda nær lífrænt eftirlit til matvinnsluaðila og fræpökkunarstöðva. Þegar aðrir rekstraraðilar bætast við fjölda bænda eru 220 rekstraraðilar undir lífrænu eftirliti. Suður-Savo er þekkt fyrir lífræna grænmetisrækt og mjólkurframleiðslu. Lífrænar unnar vörur voru framleiddar hjá 23 fyrirtækjum á svæðinu. Neytendakönnun sem gerð var árið 2023 sýnir að 40% neytenda í Suður-Savo eru tilbúnir að kaupa lífrænar vörur að minnsta kosti vikulega. Sveitarstjórnir á svæðinu hafa í sínum stefnuskrám sett það markmið að ákveðið hlutfall sé keypt og notað af lífrænt ræktuðum matvælum hjá hinu opinbera. Þar að auki eru 11 veitingastaðir í Suður-Savo sem taka þátt í áætluninni og eru með lífræna vottun.

Cows outside in the winter photo brita suokas

Hvernig hefur stuðningi verið háttað?

Svæðis-, og byggðaþróunaráætlun Suður-Savo setti sér markmið um þróun lífræna geirans frá upphafi aldamóta sem hefur meðal annars úthlutað styrkjum til þróunarverkefna. Sameiginleg stefna í þróun lífrænnar framleiðslu hefur byggst á sameiginlegum rannsóknar- og þróunaráætlunum, en sú fyrsta kom út árið 2001. Lífræn ráðgjöf og rannsóknir njóta stuðnings frá landsneti þar sem nýjar og uppfærðar lífrænar upplýsingar er stöðugt aflað og skráð í gagnabanka.

Jákvæð afstaða aðila í allri fæðukeðjunni til þróunar lífrænnar framleiðslu hefur auðveldað raunhæfar aðgerðir lífrænna rannsókna og þróunar í þróunarverkefnum. Eitt markmiðum svæðisáætlunar Suður-Savo hefur verið þróun lífrænnar framleiðslu og alls matvælageirans. Mörg mismunandi verkefni sem styðja lífræna framleiðslu hafa verið styrkt í gegnum byggðaráð svæðanna. Svæðisráðið hefur gegnt lykilhlutverki í stofnun matvælaþróunarfélags Suður-Savo, Ekoneum ásamt finnsku lífrænu rannsóknastofnuninni og matvælaklasans í Suður-Savo. Miðstöð atvinnuþróunar, samgangna og umhverfis í Suður-Savo hefur tekið tillit til þróunar lífrænnar framleiðslu í dreifbýlisáætlunum Suður-Savo í áratugi og þróunarverkefni tengd lífrænni framleiðslu hafa verið fjármögnuð víða.