Benda á fjölmörg áhrif skaðlegra varnarefna

Evrópuhópur lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM Organics Europe) hefur sett af stað herferðina #StopHarm til að vekja athygli á félags-, efnahags-, og umhverfislegum áhrifum tilbúinna varnarefna á samfélög. Um leið vill hreyfingin sjá umtalsverða fækkun í notkun varnarefna og að sú hugsjón eigi enn að vera meginmarkmið framtíðarsýnar um landbúnað og matvæli.

 „Þörfin fyrir að útrýma skaðlegum varnarefnum smám saman úr matvælaframleiðslukerfi okkar og útvega bændum aðra valkosti ætti að vera áfram ofarlega á stefnuskrá allra stjórnvalda. Lífrænn landbúnaður býður nú þegar upp á nokkrar lausnir byggðar á landbúnaðarvistfræðilegum aðferðum en fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun ætti að halda áfram að veita öllum bændum landbúnaðartækni til að tryggja nægjanlega framleiðslu á sama tíma og framleiðslukostnaður lækkar og tryggja mannsæmandi tekjur,“ segir Eduardo Cuoco, forstjóri IFOAM Organics Europe.

Stopharm1

Allra hagur að nota betri lausnir

„Með landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (CAP) og evrópskum rannsóknaráætlunum hefur sambandið nú þegar mikilvæg stefnutæki og fjárveitingar til að fylgja eftir og styðja bændur við að hætta notkun á eitruðum tilbúnum varnarefnum í áföngum. Þó er þörf á frekari stefnumótun til að vernda drykkjarvatn og tryggja auðveldari og hraðari aðgang bænda að lífvarnarlausnum og til óháðrar ráðgjafarþjónustu. Besta leiðin til að tryggja næga matvælaframleiðslu í Evrópu er að endurheimta heilbrigði jarðvegs með landbúnaðarvistfræðilegum aðferðum sem ekki treysta á tilbúið skordýraeitur og áburð,“ bætir Eric Gall, staðgengill forstjóra, við og segir jafnframt:
 „Fækkun skordýraeiturs mun skila öllum ávinningi þegar kemur að heilsu, líffræðilegum fjölbreytileika og samkeppnishæfni Evrópu, þar sem það mun draga úr mengunarkostnaði, útgjöldum til heilbrigðismála og framleiðslukostnaði. #StopHarm-herferðin beinir sjónum á myndrænan hátt að hinum fjölmörgu áhrifum víðtækrar notkunar gerviefna, svo sem á heilsu bænda og fjölskyldur þeirra, sem eru fyrstu fórnarlömb áhrifa skordýraeiturs, á vatnsauðlindir með gríðarlegum kostnaði vegna mengunar og á líffræðilegan fjölbreytileika.“

Myndefni verður birt á samfélagsmiðlum reglulega á næstu vikum til að draga fram alla þessa þætti að ofansögðu. Hægt er að fræðast nánar um herferðina á www.organicseurope.bio/stopharm

/IFOAM – FreePik