Þau sögulegu tíðindi urðu á dögunum í Noregi að norska Stórþingið samþykkti í fyrsta sinn að sett yrði sérstakt markmið um hlutfall lífræns landbúnaðarlands. Árið 2032 skal að minnsta kosti 10 prósent landbúnaðarlands vera vottað og í lífrænni ræktun. Norska ríkisstjórnin mun á vormánuðum undirbúa nokkrar tillögur að stefnumótun sem á að auka eftirspurn eftir lífrænum vörum.
“Meðal annars þarf að huga að því hvort hægt sé að nýta frumkvæði og áræðni Dana og Svía þegar kemur að tækifærum í lífrænni ræktun. Sérstaklega verður lögð áhersla á að tryggja að norsk lífræn framleiðsla geti mætt aukinni eftirspurn,” segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá Verkamannaflokknum, Miðflokknum, Frjálslynda flokknum, Kristilega demókrataflokknum og Pasientfokus-flokknum.
Mikilvægt að fylgja markmiðunum eftir
Landsstefnan fyrir lífrænan landbúnað var samþykkt árið 2018 í Noregi og fór í gegnum endurmat árið 2023 sem framkvæmd var af Oxford Research. Ein stærsta áskorunin sem matið leiddi í ljós var skortur á magnbundnu markmiði fyrir lífræna framleiðslu og árið 2024 ákvað norska Stórþingið að endurskoða ætti lífræna stefnu landsins. Nú geta norskir lífrænir bændur loksins fengið þann fyrirsjáanleika sem þeir þurfa til að einbeita sér að framleiðslu, fjárfestingu og sjálfsbjargarviðleitni.
Samkvæmt Organic Norway tryggir ákvörðunin að fleiri norskir bændur fái stuðning og hvatningu til að breyta yfir í lífræna ræktun. Samtökin eru hins vegar ekki sátt við þessi 10 prósent til lengri tíma litið, þó þetta sé mikilvægur áfangi þá er tekið fram að nágrannalöndin og ESB hafa enn metnaðarfyllri markmið: ESB stefnir á 25 prósent árið 2030, Svíþjóð í átt að 30 prósentum og Danmörk í um það bil 22 prósent. Nú sé mikilvægt að markmiðunum sé fylgt eftir með áþreifanlegum átaksverkefnum, fjármunum og aðgerðaáætlunum ásamt því að matvörukeðjur og opinberar stofnanir taki sinn hluta af ábyrgðinni og auðveldi aukna framleiðslu og sölu á lífrænum matvælum.
“Þetta er nýr áfangi fyrir norskar lífrænar vörur! Nú höfum við loksins þann pólitíska vilja sem þarf til að lyfta lífrænni framleiðslu og neyslu í nýjar hæðir. Við hlökkum til að fylgja þessu eftir í samstarfi við yfirvöld, bændur og neytendur.,” er haft eftir Stina Mehus, stjórnarformanni í Lífrænn Noregur (Organic Norway).
/okonu.dk