Danir eru lífrænir heimsmeistarar

Samkvæmt nýlegri skýrslu, The World of Organic Agriculture, sem kom út í tengslum við lífrænu sýninguna Biofach í Þýskalandi, kemur fram að Danir eru enn og aftur leiðandi á heimsvísu í smásölu á lífrænum matvælum. Heildarmarkaðshlutdeild Dana er 11,8 prósent en Svisslendingar fylgja fast á hæla þeirra með 11,6 prósenta hlutdeild og Austurríkismenn með 11 prósent.

Kirsten Lund Jensen, verkefnastjóri lífrænnar ræktunar hjá dönsku bændasamtökunum Landbrug & Fødevarer, gleðst yfir því að Danmörk geti aftur prýtt sig með titlinum lífrænir heimsmeistarar.
„Það er virkilega jákvætt að Danmörk sýni enn og aftur styrkleika sinn þegar kemur að lífræna geiranum. Þessi háa markaðshlutdeild ber vitni um að við erum bæði góð í að framleiða lífræn matvæli og að markaðssetja vörurnar rétt til neytenda. Okkar starf snýst alltaf um að efla lífræna framleiðslu í Danmörku,“ segir Kirsten Lund Jensen og bætir við:
„Við munum leggja hart að okkur til að verja stöðu okkar sem lífrænir heimsmeistarar. Það að neytendur haldi áfram að styðja við lífræn kjarnagildi eins og dýravelferð, náttúru og umhverfi gefur okkur traustan grunn fyrir framtíðina þar sem við munum halda áfram að vinna að enn sterkari lífrænum geira í Danmörku.“

Vöxtur í sölu og landssvæði
Skýrslan sýnir einnig að hinn alþjóðlegi lífræni markaður jókst um 1,5 prósent árið 2023 og fór í tæplega 140 milljarða evra. Vöxturinn er fyrst og fremst knúinn áfram af hækkandi verðum í löndum Evrópusambandsins og Bandaríkjunum sem samanlagt eru 90 prósent af lífrænum markaði á heimsvísu.

Árið 2023 jókst lífrænt vottað landbúnaðarsvæði um 2,5 prósent í samtals 98,9 milljónir hektara og er því í dag 2,1 prósent af heildarlandbúnaðarsvæði á heimsvísu. Í Evrópusambandinu er lífrænt vottað landssvæði 10,9 prósent af heildarlandbúnaðarsvæðinu en í Danmörku er það 11,4 prósent.

/lf.dk og freepik.com