Lífrænt Ísland kynnir – Sölvanes lífrænt sauðfjárbú

Eydís er alin upp í Sölvanesi og segir það hafa verið barnæsku draumur að búa þar aftur sem fullorðin. Fertug flutti hún svo í Sölvanes ásamt Mána og sonunum tveimur, og þar hefur fjölskyldan byggt upp einstakt lífrænt sauðfjárbú. Máni, sem er ættaður af Sauðárkróki og hefur reynslu úr sveitastörfum í Dölunum, deilir áhuganum á sveitalífinu og öllu sem því fylgir.

Áhugi Eydísar á lífrænni ræktun kviknaði fyrir rúmum þrjátíu árum þegar hún stundaði verknám á lífrænu búi í Þýskalandi. Árið 2019 hófu þau lífræna aðlögun í Sölvanesi, bæði af umhverfisástæðum og til að skapa sér sérstöðu á markaðnum.

„Við framleiðum lífrænt lambakjöt og leggjum mikla alúð í alla vinnslu,“ segir Eydís. „Við sjáum sjálf um allt nema slátrunina og viljum nýta kjötið sem best.“ Sölvanes er eitt af tveimur sauðfjárbúum landsins með lífræna vottun – en Eydís og Máni vona að fleiri bætist í hópinn.

Fyrir Eydísi snýst lífræn ræktun fyrst og fremst um virðingu fyrir náttúrunni. „Þetta er ræktun sem er betri fyrir bæði umhverfið og okkur sjálf. Við erum að lágmarka neikvæð áhrif landbúnaðarins,“ segir hún og bætir við að undirstaðan sé heilbrigður jarðvegur.” 

Búskapurinn býður upp á fjölbreytt og gefandi verkefni, en líka áskoranir. „Það besta er fjölbreytnin – en það er alltaf erfitt ef skepnur slasast eða veikjast,“ segir hún.

Sölvanes 7 (1)

Framtíðarsýn þeirra í Sölvanesi er skýr: að halda áfram að framleiða gæða sauðfjárafurðir sem fólk treystir og vill kaupa.  Þau leggja áherslu á samstarf í sínu nærsamfélagi – m.a. vinna þau með garðyrkjustöðinni í Breiðargerði sem einnig er lífrænt vottuð og Rúnalist galleríinu á Stórhóli. „Fjölskyldan og samfélagið skipta öllu máli” segir Eydís.

,,Hjálpsemi og aðstoð fjölskyldunnar er mikilvæg fyrir alla bændur því það þarf að sinna búskapnum alla daga ársins. Samfélagið hér er okkar besti bakhjarl og það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hversu margir heimamenn kaupa vörurnar okkar” segir Máni.

Aðspurð hvaða orð lýsi búinu best, svarar hún: „Minna getur verið meira. Við vorum með fleira fé, fækkuðum því um þriðjung til að uppfylla rýmiskröfur fyrir kindurnar en erum að fá meira fyrir afurðirnar á þennan hátt.

Í Sölvanesi er einnig sögulegur blær – þar í túninu er Sölvaleiði, þar sem sagan segir að bóndinn Sölvi sé dysjaður. „Hvort það sé satt eða ekki vitum við ekki, en við trúum sögunni þar til annað kemur í ljós,“ segir Eydís brosandi.

„Lífræna leiðin er okkar framlag til sjálfbærari framtíðar,“ bætir Máni við að lokum. „Allt skiptir máli – jafnvel lítið sauðfjárbú eins og okkar sýnir að þetta er hægt… og það er svo sannarlega pláss fyrir fleiri.“