Þann 3.desember var fyrsta fréttabréf Lífræns Íslands send út. Það verður framvegis sent út ársfjórðungslega. Í fréttabréfinu verður fróðleikur, greinar, upplýsingar, uppskrifir og fleira. Hvetjum við þig kæri lesandi til að skrá þig á póstlistann hér neðst á heimasíðunni og endilega benda öðrum á að skrá sig á póstlistann.
Við erum sannfærð um það að lífræn ræktun er það sem koma skal ekki síst vegna þeirra fjölmörgu lausna sem þetta ræktunar og matvælakerfi býður upp á, bæði fyrir einstaka neytendur og fyrir samfélagið í heild sinni. Sífellt fleiri hér heima og erlendis eru að vakna upp og sjá hve mörg aðkallandi vandamál í umhverfinu og samfélaginu lífræn ræktun er með lausnir við.
Ísland er eyja úti í miðju Atlantshafi, rík af orku og auðlindum. Eins og staðan er í dag treystum við að miklu leiti á innflutning á matvörum. Margar vörur væri þó hægt að rækta og framleiða hér á landi. Það skiptir máli að vera sjálfbær um áburðaframleiðslu – og að við færum okkur sífellt meira í þá átt að nýta lífrænan úrgang, en gríðarlegt magn lífræns úrgangs fer til spillis í dag sem væri vel hægt að nýta til að efla lífræna framleiðslu á Íslandi. Meiri innlend lífræna framleiðsla mun tryggja aukið fæðuöryggi hér á landi þar sem ekki þarf að treysta á innflutning á tilbúnum áburði. Tilbúni áburðurinn er einnig mengunar valdandi í framleiðslu, flutningi og eftir dreifingu skolast alltaf hluti hans út í ár, vötn og hafið og veldur þar skaða á vistkerfum.

Á sama tíma er til lausn – að nýta allan lífrænan úrgang á Íslandi í að búa til lífrænan áburð og tryggja þannig hringrás og sjálfbærni. Að styrkja lífrænu vottunina skiptir einnig máli í þessu samhengi en hún er gríðarlega mikilvæg til að neytendur viti fyrir víst hvaða landbúnaðaraðferð og matvælakerfi þau eru að styðja.
Það eru margar vörur sem ekki er hægt að framleiða á Íslandi, svo sem hnetur, fræ, margir ávextir o.fl. Það er því mikilvægt að við Íslendingar hugsum um hvað við erum að flytja inn og hvernig það er framleitt. Ef við erum að flytja inn matvörur sem ekki eru lífrænar getur okkar neysla hér á Íslandi verið að stuðla að mengun drykkjarvatns og hafs, hnignun líffræðilegs fjölbreytileika í þeim löndum sem varan var framleidd í. Hver einasta vara sem við kaupum hefur ákveðið umhverfisspor og innflutningsaðilar og neytendur bera ábyrð.
Okkur finnst spennandi við lífræna ræktun að hún snýst um allt frá einstaka foreldrum sem vilja gefa börnunum sínum mat án eiturefnaleifa og færri aukefni, upp í að leysa sum stærstu og mest aðkallandi krísur okkar tíma, eins og líffræðilegan fjölbreytileika, ofauðgun hafs og loftslagsvandamál. Lífræna hreyfingin er í rauninni hreyfing sem býður upp á lausnir fyrir einstaka neytendur, bændur og framleiðendur en er líka með lausnir fyrir samfélagið í heild.

Lífræn ræktun styður mörg heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna m.a. með því að draga úr mengun, bæta jarðveg og vatn, efla líffræðilega fjölbreytni og skapa sjálfbærari atvinnu og neyslu. Hún byggir á hringrásarhugsun þar sem úrgangur verður að verðmætum auðlindum, sem gæti orðið stórt tækifæri fyrir Ísland. Lífrænar aðferðir minnka losun, auka kolefnisbindingu og gera ræktun þolnari loftslagsbreytingum. Þær vernda vistkerfi og stuðla að hreinu vatni og jarðvegi, sem bætir bæði náttúru og lýðheilsu — sérstaklega þar sem lífræn framleiðsla notar mun færri aukefni og tryggir rekjanleika og gagnsæi í framleiðslu. Lífrænn landbúnaður nýtir nútímatækni og miðar að því að vinna með náttúrunni fremur en gegn henni.
Með nýrri aðgerðaáætlun stjórnvalda um aukningu lífræns vottaðs landbúnaðarlands úr 1% í 10% árið 2040 stendur Ísland á tímamótum og getur orðið leiðandi á norðurslóðum ef fjárfesting og framkvæmd fylgja á eftir. Val neytenda og verslana skiptir miklu máli, því lífræn vottun stendur fyrir mun færri aukefni, hringrásarhagkerfi, dýravelferð og ábyrgð. Nú er tækifæri til að byggja sjálfbærara og heilbrigðara Ísland fyrir framtíðina.
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir formaður VOR
& Anna María Björnsdóttir verkefnastjóri Lífræns Íslands
