
Flestir tengja Hróarskelduhátíðina í Danmörku við góða tónlist og einstaka útihátíðarstemningu. En ekki allir vita hversu mikil áhersla er lögð á fjölbreytt umhverfismál og ekki síst matinn sem seldur er á hátíðinni. Stefna hátíðarinnar hefur í mörg ár verið að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu og loftslagi. Sú stefna er ekki bara í orði, heldur einnig á borði. Í mörg ár hefur verið mikil áhersla á lífrænan mat á hátíðinni fyrir gesti. Í fyrra þurftu allir veitingastaðir sem voru með sölu á staðnum að hafa a.m.k. 95% af hráefnunum lífrænt vottuð. Nú er hátíðinni 2025 nýlokið og takmarkið var sett á 100% lífrænt vottuð hráefni í ár. Veitingastaðir sem ekki gátu uppfyllt það skilyrði fengu einfaldlega ekki að selja veitingar á þessari geisivinsælu tónlistarhátíð.
Lífræn ræktun upphafspunktur umbreytinga á matvælakerfum – á Hróarskelduhátíðinni.
Í ár fékk Madland, dönsk hreyfing sem einbeitir sér að sjálfbærari og réttlátari fæðukerfum, í fyrsta sinn eigið aðalviðburðasvæði á Hróarskeldu tónlistarhátíðinni. Madland skipulagði þriggja daga dagskrá þar sem 27 innlendir og erlendir brautryðjendur í fæðukerfum miðluðu nýjum lausnum og nýrri sýn hvernig endurhugsa má matvælakerfin okkar til framtíðar. Dagskráin samanstóð af fyrirlestrum, umræðum og smakk fyrir gesti. Einn dagur hátíðarinnar var sérstaklega tileinkaður staðbundnum þrautseigum matvælakerfum með sérstaka áherslu á lífræna ræktun og lífrænan mat.
Stofnandi og verkefnastjóri hjá Madland sagði “ við hjá Madland erum talsmenn þess að lífræn ræktun sé upphafspunktur umbreytingar matvælakerfa. Þess vegna er Hróarskelduhátíðin, með sínar lífrænu áherslur, einnig kjörinn staður til að vekja áhuga gesta í samræðum, með smakki og tilraunum, um þema ársins sem er lífræn og endurlífgandi matvælakerfi framtíðarinnar,” sagði Marie Sainabou Jeng, stofnandi og verkefnastjóri hjá Madland.

mynd: Liv Kastrup
Marie Sainabou Jeng hvatti í ræðu sinni til umbreytinga á því ójafnvægi sem ríkir að hennar mati í alþjóðlegu fæðukerfunum og aukna áherslu á lífræna, staðbundna og sjálfbæra matvælaframleiðslu.
Madland vinnur í anda Hróarskeldu hátíðarinnar, sem stefnir á kolefnishlutleysi árið 2028 og hefur markvisst dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis, aukið hringrásarhugsun og unnið að umhverfisvænni matarmenningu.

Mynd: Roskilde festival
Hægt að lesa meira hér
https://okonu.dk/mad-og-marked/madland-saetter-scenen-i-tre-dage-paa-roskilde-festival
https://www.roskilde-festival.dk/festival-med-formaal
