Fyrsta lífræna viðurkenningin

Atvinnuvegaráðuneytið afhenti fyrstu lífrænu viðurkenninguna fyrir framúrskarandi árangur í lífrænni framleiðslu á Lífræna daginn, laugardaginn 20.september í Norræna húsinu. Hjónin Kristján Oddson og Dóra Ruf á Neðra-Hálsi í Kjós og Biobú ehf. hlutu viðurkenninguna. 

Afhending viðurkenningarinnar er hluti af aðgerðaáætlun til eflingar lífrænni framleiðslu. Bryndís Eiríksdóttir sérfræðingur hjá atvinnuvegaráðuneytinu afhenti viðurkenninguna fyrir hönd atvinnuvegaráðherra. 

Á Neðra-Hálsi í Kjós hafa þau Kristján og Dóra byggt upp lífræna mjólkurframleiðslu af miklum metnaði og trú á að hægt sé að framleiða hágæða matvæli á sjálfbæran hátt í sátt við náttúruna. Þau eru jafnframt stofnendur Biobús, fyrirtækis sem margir neytendur þekkja í dag fyrir fjölbreytt úrval lífrænna mjólkurvara. Þótti því við hæfi að heiðra bæði hjónin og fyrirtækið með þessari viðurkenningu.

Kristján og Dóra hafa allt frá upphafi verið í fararbroddi lífræns landbúnaðar á Íslandi. Fyrst sem bændur að stíga ótroðnar slóðir í lífrænni mjólkurframleiðslu og síðar með því að koma lífrænum mjólkurvörum á markað sem hafa fengið góðar viðtökur. Með krafti sínum hafa þau skapað verðmæti og störf, en jafnframt hvatt aðra til að taka þátt í þróun lífrænnar framleiðslu hér á landi.

Biobu

Hjónin stofnuðu Biobú ehf. í júlí 2002. Biobú er fyrsta mjólkurvinnslan á Íslandi sem sérhæfir sig í framleiðslu lífrænna mjólkurvara og fer öll framleiðsla fyrirtækisins fram samkvæmt reglum um lífræna landbúnaðarframleiðslu. Biobú hóf sölu á lífrænni jógúrt 3. júní 2003 og hefur síðan bætt við vöruúrvalið hjá sér í takt við þarfir og óskir neytenda. 

Þau Kristján og Dóra hafa auk þess lagt sig fram um að fræða um lífræn gildi og hvatt aðra með eldmóði sínum. Þau hafa sýnt að hugrekki og skýr framtíðarsýn geta skilað sér í raunverulegum árangri fyrir neytendur, framleiðendur og umhverfið sjálft.

Kristján tók við viðurkenningunni fyrir hönd þeirra hjóna ásamt Helga Rafni Gunnarssyni framkvæmdastjóra Biobús sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins.

Afhending viðurkenningu fyrir lífrænan landbúnað 2025

Hlekkur á frétt stjórnarráðsins:

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/09/29/Nedri-Hals-i-Kjos-og-Biobu-hlutu-vidurkenningu-fyrir-lifraena-framleidslu/?fbclid=IwY2xjawNJ5EtleHRuA2FlbQIxMABicmlkETFWTm9kQUJPMEtyOVZja1VyAR4k1NZ-wt4zB1cCPI6tugmpmJ4F37G1v2NSlFt3ZPBIph4rURu4VaI3g3uiOw_aem_nfRpW0-hWKrhLDFMoEWVrg