Aðgerða er þörf svo framþróun megi verða

Höfundur er Sigurður Már Harðarson. Greinin birtist í Bændablaðinu í ágúst 2025

Fyrir ári síðan gaf matvælaráðuneytið út aðgerðaáætlun um eflingu lífrænnar framleiðslu á Íslandi. Af inngangi hennar sést að ekki var vanþörf á slíkri áætlun, en þar segir að Ísland hafi dregist aftur úr nágrannalöndunum á þessu sviði. Bæði sé hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun mun lægra hér en í nálægum löndum og flest bendi til að markaðshlutdeild lífrænnar framleiðslu sé einnig lægri hér, þó ekki séu til gögn um það.

Útgefnar aðgerðir eru alls 22 og ein þeirra gengur einmitt út á að afla betri gagna um stöðu mála. Flestar liggja aðgerðirnar enn í lausu lofti frá því að áætlunin var samþykkt, en fáeinar komið til framkvæmda. Það er hins vegar knýjandi þörf á því að meiri gangur komist í aðgerðaáætlunina því blikur eru víða á lofti og fá merki um að lífrænt vottuðum framleiðendum sé að fjölga.

ESB stefnir á 25% árið 2030

Í aðgerðaáætluninni er staða Íslands sett í samhengi við aðrar Evrópuþjóðir og háleit markmið Evrópusambandsins (ESB) útlistuð. Aðalmarkmið íslensku áætlunarinnar er að vottað land verði orðið tíu prósent af öllu landbúnaðarlandi á Íslandi árið 2040, en talið er að í dag sé það í kringum eitt prósent. ESB stefnir á að 25 prósent, að lágmarki, af öllu landbúnaðarlandi innan sambandsins verði komið með lífræna vottun árið 2030.

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir, garðyrkjubóndi í Breiðargerði í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, tók við formennsku í VOR, félags framleiðenda í lífrænum búskap, rétt áður en aðgerðaáætlunin var gefin út. „Áætlunin er mjög mikilvæg og að mörgu leyti gott plagg en auðvitað er það sem sem raunverulega skiptir máli hvernig er unnið að því að ná þeim markmiðum sem þar eru sett fram,“ segir hún.

Metnaðarfullt markmið miðað við núverandi stöðu

Í áætluninni voru í fyrsta skipti sett fram töluleg markmið fyrir Ísland um hlutfall lífræns vottaðs lands af landbúnaðarlandi,“ heldur Elínborg áfram. „Í raun er það metnaðarfullt markmið miðað við núverandi stöðu, en á sama tíma var það kannski ekki ákjósanlegt að ákvörðun um fjármögnun margra mikilvægra aðgerða er frestað til endurnýjunar búvörusamninga.

Um búvörusamningana ríkir síðan ákveðin óvissa, hvernig þeir muni líta út yfir höfuð. Það er því kannski ekki komið að því að aðgerðaáætlunin verði það mikla hreyfiafl sem hún gæti orðið. Í þessu samhengi vil ég minna á að á aðalfundi félagsins í fyrra gerði VOR kröfu um að eiga beina aðild að komandi búvörusamningum, að sérstakur samningur verði gerður um lífrænan landbúnað og stuðningsgreiðslum við hann verði haldið aðskildum frá öðrum stuðningi við landbúnað á Íslandi.“

Fjöldi framleiðenda stendur í stað

Samkvæmt upplýsingum frá Vottunarstofunni Túni voru 27 frumframleiðendur með lífræna vottun í lok síðasta árs, en innan þess flokks er landbúnaður, fiskeldi og söfnun land- og lagarjurta. Sá fjöldi hefur nokkuð staðið í stað undanfarin ár, einhverjir hætt en einnig nýir framleiðendur komið inn í staðinn.

Í hugmyndafræði lífrænnar ræktunar er gert ráð fyrir að unnið sé að heilbrigði jarðvegs í sátt við náttúruna, meðfram búskapnum sjálfum. Þar af leiðandi ætti slík nálgun ekki að valda umhverfisálagi á landbúnaðarland, ólíkt því sem getur gerst í sumum greinum hefðbundins landbúnaðar, til að mynda með notkun á eitur- og varnarefnum og tilbúnum áburði. Þetta er viðurkennt í loftslagsvegvísi bænda sem Bændasamtök Íslands (BÍ) gáfu út í byrjun ársins. Þar er beinlínis tiltekið, í yfirliti yfir aðgerðir loftslagsvegvísisins, að í þverlægum áhersluatriðum sé horft til aðferðafræði lífrænnar ræktunar.

Hlutfallið 0,3 prósent 2020

Ísland hefur verið með hvað lægst hlutfall af lífrænt vottuðu landbúnaðarlandi á Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Árið 2020 var það metið um 0,3 prósent og aðeins Grænland neðar á lista landa innan EES.

Það ár er talið að um 3,4 prósent af landbúnaðarlandi Evrópusambandsins hafi verið komið með lífræna vottun og að í 15 löndum sambandsins hafi hlutfallið verið hærra en tíu prósent. Á heimsvísu var hlutfallið talið vera um 1,6 prósent að meðaltali.

Ekki farið að tillögu um markmið

Aðgerðaáætlunin byggir á tillögum ráðgjafarfyrirtækisins Environice, en í þeim var reyndar lagt til að að árið 2030 yrðu tíu prósent af íslensku landbúnaðarlandi orðið vottað lífrænt. Því hefur mörgum sem aðhyllast hugmyndafræði lífrænnar matvælaframleiðslu, neytendum og framleiðendum, þótt aðgerðaáætlun stjórnvalda vera helst til metnaðarlítil – en góðra gjalda verð engu að síður.

Aðild VOR að BÍ var samþykkt á Búnaðarþingi árið 2018. Með breyttu félagskerfi samtakanna sem tók gildi 2021, sem í grunninn er byggt upp af deildum búgreina, verður VOR eitt þriggja aðildarfélaga sem starfa þvert á búgreinar – ásamt Beint frá býli og Samtökum ungra bænda.

Viðvarandi þörf fyrir viðurkenndan áburð

Tilteknar aðgerðir voru hugsaðar til að mæta aðsteðjandi vandamálum bænda í lífrænt vottuðum búskap. Ein slík var greining á möguleikum á notkun lífræns efnis til áburðar og fóðurs – en viðvarandi þörf er fyrir viðurkenndan áburð í þessum geira. Sólheimar, sem eru frumkvöðlar í lífrænni ræktun á Íslandi, voru með lífræna vottun á sína framleiðslu frá 1996 þegar fyrst var farið að bjóða upp á vottun, en gáfu hana upp á bátinn árið 2023 þegar ljóst var að ekki nægt viðeigandi áburðarefni var tiltækt til að standa straum af fyrirhugaðri framleiðsluaukningu.

Í umfjöllun í Bændablaðinu um miðjan ágúst á síðasta ári var haft eftir Elínborgu að eitt af brýnu málunum fyrir framtíð lífræns landbúnaðar, væri að tryggja aðgengi að nauðsynlegum aðföngum, líkt og áburðarefnum. Þar benti hún á að í væntanlegri aðgerðaáætlun væri ákvæði sem ætti að taka á þessum vandamálum. Það geti skipt sköpum bæði fyrir starfandi framleiðendur og ekki síður þau sem séu að taka sín fyrstu skref í vottaðri framleiðslu að aðgengi sé gott. Bæði að lífrænum leyfilegum áburðarefnum og upplýsingar um raunverulegt næringargildi og innihald.

Í aðgerðaáætluninni er tiltekið að stöðumat á þessum málum eigi að liggja fyrir á árinu 2024.

Aukakostnaður vegna slátrunar

Önnur mikilvæg aðgerð, sem einnig var með tímaramma á síðasta ári, er sérstakur stuðningur við afurðastöðvar, í því skyni að mæta kostnaði vegna lífrænnar vottunar.

Sölvanesbændur í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði eru einu sauðfjárbændurnir sem framleiða lífrænt vottað kindakjöt. Þau Rúnar Máni Gunnarsson og Eydís Magnúsdóttir fengu lífræna vottun á árinu 2022. Fljótlega bárust þeim þau tíðindi að Sláturhús SAH afurða á Blönduósi, það eina með lífræna vottun á Norðurlandi, ætlaði að hætta með vottunina. Þau þurftu því sjálf að greiða fyrir úttektina sem Vottunarstofan Tún gerði fyrir hverja sláturtíð. Nú hefur sláturhúsinu á Blönduósi hins vegar verið lokað og semja þarf við Kaupfélag Skagfirðinga um slátrun, annaðhvort á Sauðárkróki eða Hvammstanga.

Annar valkostur til framtíðar væri að reisa lítið sláturhús heima á bæ, sem myndi þá flokkast sem lítil afurðastöð, en allt kostar þetta fjármagn og því væri fengur í því ef þessi aðgerð kæmist fljótt til framkvæmda.

Ísland í raun með forskot á aðrar þjóðir

Elínborg segir að í raun sé það synd hvað Íslendingar eru miklir eftirbátar annarra þjóða hvað hlutfall lífrænt vottaðs landbúnaðar varðar, þegar hún er spurð hvað valdi því að við höfum dregist aftur úr. „Við erum einna best í stakk búin til að nýta okkur þessar umhverfisvænu framleiðsluaðferðir. Þrátt fyrir að við glímum vissulega við hluti eins og ótryggt veðurfar og stutt sumur þá höfum við á móti forskot, til dæmis hvað meindýr varðar sem eru afar fá hér í stóra samhenginu. Við eigum fullt af hreinu vatni, hreina orku og mikið af góðum og næringarríkum jarðvegi. Tækifæri til nýsköpunar, fjölbreyttrar nýtingar og uppbyggingar ræktunarjarðvegs eru víða. Þá hafa ekki verið nefnd tækifærin sem eru víða hvað nýtingu lífrænna áburðarefna varðar og þeim fer í raun fjölgandi, til dæmis með auknu landeldi en einnig með vitundarvakningunni og auknum kröfum um meðferð lífræns úrgangs. Lífrænn landbúnaður vinnur í grunninn út frá hringrásarhugsun sem á að vera hægt að heimfæra á samfélagið allt, færir lausnir á sama tíma og til verða heilnæmar afurðir.“

Vaxandi áhugi ungs fólks

Elínborg segist þó skynja vaxandi áhuga fólks, ekki síst ungs fólks, á lífrænni framleiðslu og því sem henni viðkemur. „Eðlilega kannski í ljósi þess að við höfum allt að vinna og engu að tapa í því að tryggja framtíð í heimi stórra áskorana og hraðrar þróunar og breytinga.

VOR hefur talað fyrir ýmiss konar aðgerðum sem ákjósanlegum til að auðvelda fólki að hefja lífrænan búskap, hvort sem verið er að byrja frá grunni eða skipta yfir frá hefðbundnum. Okkar skoðun er til dæmis sú að vottunarkostnað mætti niðurgreiða að fullu í samræmi við það sem er gert í öðrum löndum,“ segir hún og bendir á að styrkir til aðlögunar að lífrænum framleiðsluháttum séu í boði.

„Úr þeim sjóði er úthlutað árlega og ég hvet fólk til að nýta sér þann stuðning. Aðgerðaáætlun stjórnvalda til eflingar lífrænnar framleiðslu var líka stórt skref fram á við, en þar eru margar jákvæðar aðgerðir nefndar sem ráðast þyrfti í sem fyrst,“ bætir hún við.

Skortur á markvissari þekkingaröflun

En það er margt fleira sem vantar í grunnvinnuna svo taka megi hraðari skref fram á við. „Aðgengi að upplýsingum er líka gríðarlega mikilvægt. Við þurfum fleira fagfólk sem styður við greinina. Við þurfum að geta aflað þekkingar og reynslu á markvissan hátt, miðlað henni og lært. Það þarf að vera hægt að mennta sig í lífrænum fræðum, þverfaglegt og á háskólastigi. Lífræni geirinn þarf prófessorstöðu við Landbúnaðarháskólann. Á sama tíma þarf framtíð þeirrar menntunar sem þegar er í boði, til dæmis hjá Garðyrkjuskólanum, að vera örugg. Við þurfum fleiri yrkja- og jarðvegsrannsóknir sem miða forsendur út frá þörfum lífræns landbúnaðar,“ segir Elínborg.

„Einhverra hluta vegna heldur íslenskt samfélag stundum aftur af greininni með því að detta í þann gír að gera samanburð og telja sig þurfa að sanna hvort hægt sé að stunda lífræna ræktun hérlendis. Það er hægt. Við vitum það, það hefur verið gert með góðum árangri svo áratugum skiptir. Rannsóknir og ráðgjöf eiga að miða að því að auðvelda þessum starfandi bændum að stunda sinn búskap og nýjum að stíga inn í hann. Fylgjast með þróun og nýjungum. Leysa úr vandamálum þegar þau koma upp og innleiða nýja tækni og aðferðir. Við þurfum að svara þeirri þörf fyrir fram, ekki bíða eftir að ákveðin eftirspurn myndist eða ákveðið margar fyrirspurnir berist. Ef þú ert ekki að bjóða upp á þessar upplýsingar opinbert, hví ætti þá einhver að spyrja þig eða gera ráð fyrir að þú getir svarað?“ spyr Elínborg.

Elínborg bendir enn fremur á að þegar ráðgjöfin, upplýsingarnar og vitneskjan er orðið almennt aðgengilegt öllum þá geti margt gagnast bændum í hefðbundnum búskap líka í aðferðafræði lífrænnar framleiðslu. „Jafnvel þótt þeir ætli ekki að taka upp vottun í okkar kerfi þá gætu einhverjir viljað nýta lífrænan áburð betur, vinna gegn illgresi með ræktunaraðferðum og tækjabúnaði í stað eiturs og minnka þörf á innfluttum aðföngum.

Orðræðan verður oft að lífræn framleiðsla sé svo flókin. Svo þarf alls ekki að vera, en hún er aðeins öðruvísi en hefðbundin og með góðu aðgengi upplýsinga myndum við afflækja ýmislegt og auðvelda inngöngu í greinina.“

Til að styrkja rekstrargrundvöllinn hefur Elínborg farið meira út í úrvinnslu á sínu hráefni.
Sjálf byggt upp frá grunni

Sjálf segist Elínborg hafa verið að byggja upp frá grunni í Breiðargerði, þar sem engin starfsemi var áður. Hún keypti landið árið 2015, en þá hafði enginn búskapur verið á jörðinni frá 1975 – og enginn tækja- eða húsakostur. Hún fór í gegnum tveggja ára aðlögunartímabil að lífrænum framleiðsluháttum frá árinu 2019 og fékk til þess aðlögunarstuðning. „Þegar maður byrjar frá núlli þá er margt sem þarf að gera og græja, margt sem þarf að smella og strengir sem þarf að stilla saman. Ég er líka á svæði þar sem lítil sem engin útiræktun er stunduð yfirhöfuð og áskoranir víða, til dæmis hvað almenna reynslu og aðgengi að aðföngum varðar. Svo er veðurfar heldur ekki eins alls staðar á landinu.

Það tel ég alls ekki útiloka ákveðin svæði til ræktunar grænmetis, er einungis að benda á þetta í því samhengi að það getur þurft að aðlaga ýmislegt, eins og yrki, tímasetningar, aðferðir og aðbúnað. Sem sagt spurning um hvað sé hægt að rækta og hvernig, ekki hvort það sé hægt að rækta eitthvað.“

Úrvinnsla og nýsköpun meðfram ræktuninni

„Ég hef verið að reyna að finna minn takt og prófað ýmislegt sem hefur verið ótrúlega skemmtilegt ferli. Hluti af því var að ég hóf að framleiða vörur úr hluta uppskerunnar minnar, sérstaklega úr auka- og hliðarafurðum. Ég hef líka unnið að nýsköpunarverkefnum, það umfangsmesta hingað til gengur út á nýtingu vallhumalsblóma sem bragðefnis í matvæli,“ heldur Elínborg áfram að lýsa sinni uppbyggingu.

„Vörurnar hef ég hingað til framleitt og selt undir nafni garðyrkjustöðvarinnar. Þær hafa verið án vottunar þrátt fyrir að öll innihaldsefni séu lífræn, en nú eru þær flestar loksins að fara í gegnum vottunarferli sem vonandi líkur á allra næstu vikum. Samhliða því hef ég verið að breyta umbúðum og útliti og mun með haustinu setja á markað unnar vörur með lífræna vottun undir nýja vörumerkinu „GRÆNT“. Vörurnar eru framleiddar samhliða ræktuninni og uppistaðan lífrænar afurðir úr henni, en verður nú dreift víðar og fá aukið tækifæri til að skapa sér sinn eigin vettvang. Jafnvel verður tækifæri til að auka vöruúrvalið.

Það hefur verið í mörg horn að líta hvað þetta varðar og ég hef eðlilega þurft að setja aðeins minni orku í annað á meðan. Þannig miðar ræktunin í ár til dæmis fyrst og fremst að því að ég eigi grænmeti til að selja hérna heima í sjálfsafgreiðslunni og hráefni í framleiðslu næsta hausts og vetrar. Lífræna ræktunin sjálf er samt alltaf grunnurinn í öllu sem ég geri og hugmyndin að þetta styðji við hvort annað þegar allt verður komið í réttan farveg.“

Elínborg selur stóran hluta af sinni framleiðslu í heimasölu.
Aukinn stöðugleiki í rekstrinum

Hún segir aðalástæðu þess að hún fór að gefa úrvinnslunni meiri gaum helgast af þeirri staðreynd að útiræktun er frekar óstöðug, veðurháð og bara hægt að stunda hana hluta árs. „Það er gott að geta verið með vörur samhliða sem hafa langt geymsluþol og er tiltölulega auðvelt að senda milli landshluta. Þannig að ég er að leggja grunn að auknum stöðugleika í rekstrinum. Ég þarf væntanlega ekki að minna neinn á hvernig veðrið var seinasta vor og sumar en ég er staðsett á einu af þeim svæðum sem fengu hvað mestan snjóþunga í júní, beint á jörð sem enn var frosin. Það ýtti auðvitað á mig að gera framleiðslunni hærra undir höfði.

En ég hef í framhaldinu líka mikið velt fyrir mér hvernig maður vinnur með slíkum veðuröfgum. Hvað er mest takmarkandi þátturinn hvað ræktun við erfiðari skilyrði varðar. Það er auðvitað ýmislegt hægt að gera, til dæmis er hægt að hita upp ræktunarsvæði með lögnum í jarðvegi, en svo þurfa allar framkvæmdir að svara kostnaði. Sem hluta af þessum pælingum er ég núna að prófa að rækta að hluta í varanlegum, upphækkuðum beðum. Hugsunin er að búa til einhverskonar millistig þess að rækta á akri og í húsi. Nokkuð ódýr og einföld framkvæmd en samt ávinningur í formi þess að ekki þarf að bíða eftir að geta jarðunnið, jarðvegur hitnar hraðar og afmörkunin minnkar frjálst aðgengi illgresis.“

Heildræn nálgun

Eitt af því sem einkennir lífræna ræktun garðyrkjubænda er heildræn nálgun í samhljómi við náttúruna og fjölbreytni í tegundavali. Þá er venjulega unnið með tegundir sem vinna vel saman og þörf fyrir útsjónarsemi til að umgjörðin virki vel heildrænt. „Ég er að vona að svona geti ég lengt uppskerutímabilið. Byrjað í húsunum, svo í upphækkuðu beðunum og loks í görðunum. Já, og ef það kemur aftur jafnvonlaust ræktunarár og í fyrra gæti þetta skilið milli uppskeru eða ekki. En ég er bara búin að setja upp nokkur beð til prufu, sjáum hvað setur. Það er allavega alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt.

Verð samt að minnast á að eins og seinasta ár var leiðinlegt til grænmetisræktunar þá setti ég niður í nokkur skjólbelti það sumarið og þau eru svona ægilega fín núna. Bleytan og svalinn greinilega verið fínasta veganesti fyrir trén, svo þetta er nú alls ekki alltaf bara svart eða hvítt.“

Ein nýjasta viðbótin í búskapinn í Breiðargerði eru býflugur, sem hún endurnýjar kynnin við eftir að hafa misst bú veturinn 2022 til 2023. Býflugnarækt fer vel með vallhumlinum sem vex í stórum stíl á landi Elínborgar. „Þetta fer mjög vel saman og vallhumallinn er greinilega mikilvæg fæðuuppspretta fyrir þær þessa dagana. Á móti hljóta flugurnar að hjálpa til við fjölgun hans og það er gaman að geta látið þessar tvær hliðar búskaparins styðja hvor aðra.“

Lífrænt Ísland

En þó að ýmislegt í aðgerðaráætluninni hafi ekki enn komist á dagskrá, eru þar aðgerðir sem þegar er farið að vinna að. Elínborg segir að til dæmis sé ástæða að nefna að í byrjun árs hafi bændum með lífræna vottun gefist kostur á að sækja um tækjastyrk, sem eigi að standa straum af kostnaði við kaup á sérhæfðum búnaði til að stuðla að aukinni framlegð í lífrænum landbúnaði. Þó hafa óánægjuraddir heyrst meðal bænda um að ekki hafi náðst að afgreiða styrkumsóknir fyrir sumarið, eins og væntingar stóðu til. Elínborg segir að hún muni taka málið upp á fundum með fulltrúum í atvinnuvegaráðuneytinu á næstu vikum.

Þá nefnir Elínborg verkefnið Lífrænt Ísland, sem hefur verið í gangi í nokkur ár og fyrirheit eru um það í aðgerðaráætluninni að því verði haldið áfram.

„Það er í grunninn verkefni sem er liður í samstarfssamningi VOR, Bændasamtaka Íslands og atvinnuvegaráðuneytisins og markmiðið er að auka lífræna framleiðslu á Íslandi.

Það er VOR sem stýrir verkefninu, en dagleg störf eru í höndum starfsmanns í hlutastarfi, Önnu Maríu Björnsdóttur, sem heldur úti heimasíðu og samfélagsmiðlum Lífræns Íslands. Áherslan er ekki síst myndbirtingar, fréttaflutningur og fræðsla til neytenda, auk þess sem Lífrænt Ísland heldur utan um Lífræna daginn sem haldinn er hátíðlegur ár hvert Í ár er það laugardagurinn 20. september. Það er vel þess virði að leita miðlana uppi og fylgjast með fréttum þar.

Verkefni af þessu tagi er klárlega mikilvægur liður í því að auka sýnileika og þar með veg og vanda lífræna geirans. Verkefnið Lífrænt Ísland hefur einnig verið fjármagnað út árið 2026, og þar með lífræni dagurinn einnig.“

Gulrætur er ein aðaltegundin í ræktun Breiðargerði.
Aðgerðaáætluninni þarf að fylgja og vinna eftir

Að sögn Elínborgar undirrituðu atvinnuvegaráðherra og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands samning um áframhaldandi þjónustu á sviði rannsókna, þróunarvinnu og sérhæfðrar ráðgjafar fyrir árin 2025–2027, meðal annars í lífrænni framleiðslu, sem sé einnig mjög jákvæð aðgerð.

„Það er sem sagt engin kyrrstaða, en mikilvægt að muna að aðgerðaáætluninni þarf að fylgja og vinna eftir auk þess sem einn liður hennar var að hún yrði endurskoðuð reglulega og uppfærð. Hún þarf að vera lifandi og virk,“ segir hún.

Hugmyndafræði „auðgandi landbúnaðar“ varð áberandi á vormánuðum í umræðu um landbúnað, en málþing var haldið í byrjun apríl þar sem kostir þessarar nálgunar voru ræddir. Aðferðafræðin er skyld þeirri lífrænu, þar sem grunnhugmyndin gengur út á að rækta jarðveginn á umhverfisvænan hátt, ekki síður en afurðirnar sem í honum vaxa.

Elínborg segir auðgandi landbúnað í raun vera einn anga hefðbundins landbúnaðar eins og staðan sé á Íslandi í dag. Engar fastmótaðar reglur á bak við, ekkert eftirlitskerfi, engin vottun – og þar af leiðandi ekki til staðar öryggi neytandans um hvað hann fær með búvörunni. „Mér hefur alltaf fundist einmitt þetta neytendaöryggi, upprunavottunin og rekjanleikinn vera stór hluti af verðmætum lífrænnar vottunar.

En það er samt jákvætt ef hluti hefðbundins landbúnaðar er að færa sig nær þessum lífrænum aðferðum og hugsjón og ég vona innilega að fólk ákveði þá að stíga skrefið til fulls og færi sig yfir í lífrænt vottaða starfsemi. Ég fagna því að bændur láti sig jarðvegsheilbrigði og líffræðilegan fjölbreytileika varða í auknum mæli. Heimurinn á aldrei of mikið af hugmyndaríku fólki sem vill og hefur tækifæri til að prófa sig áfram og hefur löngun til þess að vinna í sátt við náttúruna.“

Vopnin gegn grænþvotti

„En um leið verðum við öllum stundum að vara okkur á því að rugla ekki neytendur eða villa um fyrir þeim þótt óviljandi sé. Í veruleika þar sem liggur fyrir að leysa risastór málefni á borð við loftslagsbreytingar, plastmengun, ofauðgun vatns og hrun vistkerfa er rými fyrir grænþvott gífurlegt og okkar eina raunverulega vopn að hafa skýrar reglur og ramma og vinna út frá þeim,“ heldur Elínborg áfram.

„Það er í raun með ólíkindum hversu algengt það er orðið víða um heim að villa um fyrir neytendum með notkun hugtaka og stimpla sem ekkert er á bak við. Vistvænt, náttúruvænt, sjálfbært, umhverfisvænt, það er hægt að telja endalaust. Staðreyndin er sú að fullyrðing um framleiðsluaðferð sem ekki styðst við skýrt regluverk – og ekki tekið út af þriðja aðila – er einskis virði.

Lífrænn landbúnaður er í raun hringrásarkerfi í framkvæmd. Grunnmarkmið hans er að vinna í sátt við náttúruna, auka frjósemi lands og stuðla að líffræðilegri fjölbreytni. Til þess að landbúnaður eigi framtíð verður að gæta hófs hvað nýtingu auðlinda varðar og tryggja sjálfbærni í stað þess að horfa fyrst og fremst á hámarks afköst hér og nú. Í því felst stöðugleiki og hagkvæmni til framtíðar. Lífræn ræktun leggur áherslu á að bera virðingu fyrir næringarefnum, koma lífrænum hráefnum aftur inn í næringarhringrásina og nýta áburðarefni úr nærumhverfinu að eins miklu leyti og hægt er. Lífræn ræktun og framleiðsla kjarnar í raun margar þær áherslur sem taldar eru mikilvægar fyrir nútímalega framleiðsluhætti og neytendur kalla eftir, svo sem að minnka losun og stuðla að sjálfbærni.“

Gunnar Bjarnason korn- og kartöflubóndi.
Margvísleg úrræði gegn illgresi

„Í lífrænni ræktun er fjölbreyttum aðferðum beitt til að auðga jarðvegslífið og vinna gegn illgresi,“ segir Elínborg spurð um hvernig bændur með lífræna vottun glími við illgresið. „Skiptiræktun er skylda, ræktun er róterað milli svæða til að koma í veg fyrir að sjúkdómar og meindýr nái sér á strik og vinna gegn jarðvegsþreytu. Mismunandi plöntur hafa misdjúpt rótarkerfi, nýta sér næringarefni í mismunandi hlutföllum og á þær leggjast mismunandi meindýr.

Lífrænn áburður er nýttur til að auðga jarðveg. Svo eru tilteknar plöntur ræktaðar tímabundið í þeim tilgangi að blandast jarðveginum og bæta hann.

Nú er orðið skylt samkvæmt reglum að hafa ræktun belgjurta sem hluta af skiptiræktunarplani. Belgjurtir hafa þann eiginleika að vinna nitur úr andrúmslofti og koma niður í jarðveginn. Belgjurtir geta einnig virkað sem lífrænn áburður, jafnvel samhliða.

Jarðvinnsla er síðan notuð eftir þörfum til að halda niðri illgresi og ýmsir valkostir hvaða sérhæfð tæki til illgresishreinsunar eru notuð – en þau eru sífellt að verða fleiri.

Lífrænn jarðvegur er frjósamur og lifandi, enda er virkni jarðvegsins, fjölbreytileiki jarðvegslífveranna, grundvöllur þess að lífrænn áburður brotni niður og verði aðgengilegur plöntum. Það er því sérstaklega mikilvægt fyrir lífræna bændur að sinna honum af kostgæfni og virðingu.“

Elínborg segir að það sé stundum hollt að minna sig á að íslenskur landbúnaður í heild á mun meira sameiginlegt en það sem skilur í sundur búgreinar og aðferðir. „Flest stóru málanna, stærstu áskoranirnar, eru sameiginleg hjá okkur öllum. Við þurfum raunverulegar aðgerðir, stuðning og sjálfbærni sem virkar til lengri tíma, traustan rekstrargrundvöll fyrir bændastéttina í heild.“

Ekki má skerða möguleika komandi kynslóða

Elínborg leggur áherslu á að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi þegar til framtíðar er litið fyrir íslenskan landbúnað. Mikilvægt sé að stökkva ekki á skammtímalausnir sem auka framleiðni eða framleiðslu líðandi stundar og skerða um leið möguleika og tækifæri komandi kynslóða. „Ég tel líka afar mikilvægt að halda í fjölbreytni landbúnaðar hvað varðar framleiðsluvörur, framleiðslueiningar, uppruna og svæðiseinkenni. Halda í og byggja upp grósku og hefðir jafnt í frumframleiðslu og úrvinnslu um allt land.

Lífræn ræktun og framleiðsla er raunverulegur kostur og lausn sem getur aðstoðað okkur við að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.

Sjálfbær framleiðsla sem leggur áherslu á að nýta hráefni úr nærumhverfi, stuðla að næringarefnahringrás og viðhalda frjósemi.

Það vantar oft bara aðeins upp á að byggja brýr og fullhugsa lausnir, til dæmis í áburðarmálum. Það er í raun fáránlegt að bændur geti skort áburð á sama tíma og lífrænn úrgangur er víða um land flokkaður sem vandamál.

Ég hef áður sagt að VOR telur mikilvægt að heimildir, til dæmis til notkunar á mismunandi áburðarefnum, séu eins rúmar og hægt er og að samræmi við útfærslur í öðrum löndum Evrópu sé sem mest, án þess þó að það komi niður á trúverðugleika vottunarinnar. Heimildirnar verða að vinna með framleiðendum og gera sem flestum kleift að starfa innan ramma vottaðrar framleiðslu. Það er til dæmis mikilvægt að reglugerðir geri ráð fyrir að nýir áburðargjafar og aðferðir geti komið fram og hefti ekki nýsköpun og þróun

Við þurfum ramma og utanumhald sem heldur með okkur, styður okkur í að vaxa og gerir okkur kleift að sinna vinnunni okkar án þess að þurfa að hafa áhyggjur af framtíð greinarinnar.“

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu í ágúst 2025 https://www.bbl.is/frettir/frettaskyring/adgerda-er-thorf-svo-framthroun-megi-verda?fbclid=IwY2xjawNfIEFleHRuA2FlbQIxMABicmlkETFoRXlHSHJTWU44eml6dkhVAR54rJe5neTGUCjEuN87GepuwdhHlbmJkL86sATHiyP_CWK78tkctkaPiHzAJg_aem_ScaDIPyV3CCcDiI4-mhfyQ