Frá vinstri: Alejandra G. Soto Hernández, Karítas Jökla Ilmardóttir, Inger Steinsson, Vífill R. Eiríksson , Leto Bjartur Vífilsson, Ilmur Sól Eiriksdóttir, Tindur Eldjárn Ilmarson, Eiríksson K. Gunnarsson
Í Svarfaðardal, umvafið ríkulegri náttúru og ró, stendur Syðra Holt – félagsbú þar sem þrjár fjölskyldur og þrjár kynslóðir búa og starfa saman. Bærinn er í stöðugri uppbyggingu og þar er stunduð lífræn ræktun og eru þau með vottun á henni. Einnig notast þau við aðferðir lífefldrar ræktunnar (biodýnamísk). Ásamt fjölbreyttum landbúnaði er matarhandverk og menningarsköpun í öndvegi í Syðra Holti.
“Á Syðra Holti fer fram fjölbreytt útiræktun á grænmeti og lítum við svo á að fjölbreytt umhverfi verði frjórra og gróskumeira með tímanum” segir Vífill. Sú sannfæring er ekki bara þeirra heldur er hún studd af fjölda erlendra rannsókna. Bændurnir á Syðra Holti nýta einnig þær náttúrulegu auðlindir sem jörðin gefur – tína villtar jurtir, þurrka þær og blanda í ilmandi te.
Á sama tíma er unnið að því að byggja upp lítinn hóp búfjár – mjólkurfé – með það að markmiði að hefja framleiðslu á sauðaosti þegar búið hefur náð nægjanlegri stærð. “Þetta er verkefni sem tekur tíma, en hér á Syðra Holti vinnum við með hugmyndina um að „góðir hlutir gerast hægt“ segir Eiríkur.
Ein af meginstoðum búsins er áhugi á gerjun matvæla. Undir vörumerkinu Yrkja hafa þau nú þegar sett á markað mjólkursýrt grænmeti og vinna nú að þróun kombucha. Fram undan er áframhaldandi tilraunastarfsemi í ostagerð, sem stefnir að því að gera gerjaðar matvörur að sérstöðu búsins.
“Vörumerkið Yrkja stendur ekki aðeins fyrir framleiðsluna – heldur einnig heimspeki búsins: að yrkja jörðina. Ásamt því er mikilvægt að vera skapandi og yrkja okkar innri garð ef svo má segja, þar sem sögur, söngur og aðrar listir fá að vaxa og dafna” segir Inger.
Tákn Yrkju – þrískipta lokaða hringrásin – endurspeglar heimspeki búsins. “Í lífefldri ræktun er leitast við að skapa sjálfbæra hringrás þar sem hver þáttur, hvort sem er jarðvegur, dýr eða mannshöndin, er hluti af heild sem styður og nærir sjálfa sig” bætir Eiríkur við.

Lífræn ræktun sem lífsstefna
Fjölskyldurnar að baki Syðra Holti hafa verið lífrænir neytendur í áratugi og var lífræn ræktun augljós leið þegar búskapur hófst. Þau trúa því að lífrænt ræktaður matur sé bragðmeiri, hollari og laus við óæskileg efni sem fylgja hefðbundnum aðferðum, s.s. tilbúnum áburði. Meginhugsunin er þó jarðvegurinn sjálfur. „Góður jarðvegur er undirstaða allrar ræktunar – ekki aðeins hér og nú, heldur til framtíðar,“ segir Eiríkur og Inger bætir við “Með því að næra jarðveginn í stað þess að tæra hann er verið að leggja grunn að sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir.” Vífill segir það að vera bónda færi mann nær móður jörð og fá mann til að lifa enn sterkar með hrynjanda ársins og fjölbreytileika árstíðanna. Hann segir náttúruna þó geta verið harða á tíðum sem getur reynst erfitt og kallar á mikinn sveigjanleika. “Hver ár kennir eitthvað nýtt” segir Vífill.
Eiríkur bætir við “Að vera í lífrænni ræktun krefst mikillar vinnu þegar verið er að byggja upp landið. Hérlendis er lítil þekking eða meðvitund um lífræna ræktun samanborið við nágrannalöndin svo hér liggur mikil vinna í að upplýsa og kynna lífrænt fyrir neytendum.”
Samfélagstengd framtíðarsýn
Nærsamfélagið gegnir stóru hlutverki á Syðra Holti. Á sumrin geta íbúar í nágrenninu gerst áskrifendur að grænmeti upplifað ríkulegar gjafir íslenska sumarsins. Reglulega eru haldnir markaðir og hátíðir og búið er að byggja upp samfélagsstuddan landbúnað (CSA), hugmyndafræði sem er víða þekkt erlendis.
“Í framtíðinni er ætlunin að taka á móti bæði Íslendingum og erlendum gestum og bjóða þeim að fræðast um lífræna ræktun, lífefldan búskap og það samfélag sem er að byggjast upp á Syðra Holti” segir Alejandra. Aðspurð um hvað þau vilji einna helst að fólk viti um lífræna ræktun segir Vífill “Við viljum að neytendur viti að lífræn vottun tryggir það að ekki hafa verið notuð efni eins og sveppaeitur, skordýraeitur eða illgresiseitur eða tilbúinn áburður í ræktuninni, sem eru almennar aðferðir í hefðbundnum landbúnaði.
Þau á Syðra Holti hafa átt í góðu samstarfi við Rækta á Akureyri sem eru að rækta spírur og hafa því oft lífrænan úrgang sem hefur vegnast vel til að byggja upp safnhauginn þeirra. “Við erum einnig að “hægelda” framtíðarsamstarf við aðra staðbundna framleiðendur” bætir Aljeandra brosandi við.
Aðspurð um hvernig þau sjá Syðra Holt leggja sitt af mörkum til sjálfbærari matvælaframleiðslu á Íslandi svarar Vífill: “Með ræktun okkar leggjum við okkar af mörkum til að styrkja fæðuöryggi á Íslandi. Við viljum einnig efla matarsjálfstæði (e. food sovereignty) okkar þjóðar og kynna jákvæð langtímaáhrif þess á aukna matvælaframleiðslu í landinu”.

