Vistrækt og sjálfbær búskapur

Sigrún Landvall, lífrænn bóndi í Steinaborg í Berufirði og lögfræðingur hélt áhugavert erindi á Landbúnaðarsýningunni í Laugardalshöll undir yfirskriftinni Lífræn ræktun með hamp á Steinaborg – Möguleiki með hamp. Þar að auki kynnti hún nýjan hampsalva frá Steinaborg á sýningunni sem hlaut góðar viðtökur en fjölskylda Sigrúnar er með ýmis járn í eldinum á bænum þar sem fjölbreyttni í lífrænni ræktun vex ár frá ári. Erindi Sigrúnar á Landbúnaðarsýningunni má sjá hér.

„Þetta byrjar með því að elsti sonur minn, Bergur Hrannar Guðmundsson, hafði áhuga á að búa í sveit. Faðir minn hafði keypt Steinaborg í Berufirði árið 1969 en þar var aldrei föst búseta. Faðir minn var trillusjómaður og við dvöldum þar mikið á sumrin. Við áttum þetta eyðibýli sem var lítið notað og árið 2014 langaði syni mínum að prófa að flytja á Steinaborg til að láta bóndadraum sinn rætast, ” útskýrir Sigrún.

Img 20180616 102330

Súrsuð egg, hampur og kornrækt

Þegar sonur Sigrúnar hófst handa var ekki rafmagn, hiti og vatn í húsinu sem er frá 1917 og byggt í austfirskum stíl.
„Húsið var byggt inn í tóft á gamla bænum en það brann árið 2015 og þá var tóftin enn eftir. Í kjölfarið var komið að ákveðnum þáttaskilum hjá okkur með hvað við ættum gera. Sumarið eftir fórum við síðan í að byggja upp staðinn svo núna erum við komin með þrjú misstór hús á jörðinni,” segir Sigrún og bætir við:
„Sonur minn byrjaði síðan með hænur og þróaði súrsuð egg sem urðu mjög vinsæl. Smátt og smátt ákváð hann að fara út í lífræna ræktun enda hefur Steinaborg verið lífrænt alla tíð. Við höfum verið í aðlögun síðan 2019 en það sem stendur eftir fyrir vottunina er beitilandið. Núna eru einnig komnir hestar á jörðina og kindur en einnig erum við að prófa okkur áfram með korn- og hamprækt. Fyrsta lífræna lambakjötið kom í fyrra þegar slátrað var í fyrsta sinn en framkvæmdin var í heimasláturhúsi á Lindarbrekku. Úr hampinum erum við að þróa salva sem hefur hlotið góðar viðtökur. Okkur langar að halda áfram með meiri kornrækt en stefnan hjá okkur er að verða sjálfbær. Einnig erum við að þróa með okkur vistrækt eða permaculture eins og það útleggst á ensku sem er mjög athyglisvert. Það gengur út á að nota það sem jörðin gefur. Við notum til dæmis skít og gamalt hey sem við blöndum hampfræjunum saman við og plöntum með taðdreifara. Plönturnar vaxa í þessu og það kemur ekkert illgresi. Svo það er ýmislegt í þróun hjá okkur og skemmtilegt að prófa mismunandi hluti í búrekstrinum. ”

Img 20210907 071644
Img 20210825 112517