Þriðjudaginn 5. nóvember var heimildarmyndin GRÓA forsýnd í Bíó Paradís. Anna María Björnsdóttir og Tumi Bjartur Valdimarsson hafa unnið undanfarin ár við að setja myndina saman sem fjallar um stöðu lífrænnar ræktunar á Íslandi og stöðu bænda í þeirri grein.
„Þetta hefur verið gríðarlega lærdómsríkt ferli en sameiginlegur áhugi okkar Tuma fyrir efni myndarinnar og drifkraftur okkar beggja til að leggja okkar af mörkum fyrir málefnið er það sem hefur drifið þetta áfram. Bændur í lífrænni ræktun á Íslandi eru aðeins um 30 talsins og aðeins 1% af bændastéttinni. Mörg hafa þau synt gegn straumnum í áratugi og lagt á sig gríðarlega vinnu, við erfiðar aðstæður en sýna og sanna að lífræna ræktun er vel hægt að stunda á Íslandi þó margt þurfi að bæta,“ útskýrir Anna María.
Stór stund fyrir okkur
Í heimildarmyndinni GRÓU er fylgst með leiðangri Önnu Maríu við að komast að því hvers vegna lífræn ræktun hérlendis er ekki komin jafn langt eins og til dæmis í Danmörku og hvað sé hægt að gera til að breyta því.
„Nýútkomin aðgerðaáætlun stjórnvalda inniheldur markmið um að tífalda lífræna ræktun á næstu árum og við erum þess fullviss að lífræn ræktun er það sem koma skal. Heimildarmyndin fjallar um lífræna ræktun en sagan er sögð í gegnum mig, Önnu Maríu, tónlistarkonu sem bjó í Danmörku um árabil. Þar kynntist ég Jesper sem ólst upp á lífrænum bóndabæ á Jótlandi. Saman fluttum við með börnin okkar til Íslands og komust að því hve skammt á veg lífræn ræktun á Íslandi var komin miðað við í Danmörku. Ég heimsótti nokkra lífræna bændur og leitaði einnig erlendis til að finna svör. Með tónlistalegri tengingu fann ég óvæntan samhljóm með efni myndarinnar.“ segir Anna María og bætir við:
„Þetta var stór stund fyrir okkur að deila þessari mynd loksins með öðrum. Við erum mjög þakklát fyrir viðtökurnar, símtöl og skilaboð sem við höfum fengið. Það skiptir miklu máli fyrir umhverfið, okkur og komandi kynslóðir hvernig maturinn okkar er búinn til. Þessi mynd er okkar innlegg í áframhaldandi umræðu um lífræna ræktun bæði á Íslandi og víðar.“
GRÓA verður frumsýnd í Sjónvarpi Símans bráðlega. Myndin er fjármögnuð í gegnum Karolina hópfjármögnun, Sjónvarp Símans og Kvikmyndasjóð Íslands.