Auka sölu með meiri sýnileika

Nudging Organic eða að þrýsta á neytendur að velja lífrænar matvörur er þriggja ára verkefni styrkt af Framkvæmdastofnun Evrópurannsókna (REA) hjá Evrópusambandinu og hófst árið 2022. Bionext í Hollandi hefur umsjón með verkefninu en BioForum í Belgíu, Pro Luomu í Finnlandi og Lífrænt Svíþjóð tóku þátt í herferðinni þar sem þróaðar voru nýstárlegar aðferðir til að ná til neytenda.

Undir sameiginlega slagorðinu „Lífrænt í Evrópu: hluti af lausninni“ stefndu hver landssamtök að því að auka viðurkenningu og traust á lífrænu merki ESB meðal neytenda ásamt því að auka sölu á lífrænum matvörum í sínu landi. Í upphafi voru þróaðar fjórar aðskildar herferðir, hver sérsniðin að tilteknu landi. Þó að sjónræn tjáning, raddblær og ljósmyndun hafi verið breytileg voru kjarnaskilaboðin skýr: lífrænar vörur bjóða upp á marga hagkvæma, félagslega og vistfræðilega kosti ásamt því að vera jákvætt og lausnamiðað val fyrir neytendur. Það að þrýsta á neytendur þýðir að gera þeim auðveldara fyrir að velja rétt, breyta fyrri hegðun en ekki viðhorfi ásamt því að taka ekki í burtu frjálst val fólks eða breyta verðum á vörum.

Sænsk herferð1

Markmið verkefnisins var að dreifa þekkingu til neytenda um hvað lífrænar vörur væru og hvers vegna þær væru þess virði að velja. Innan verkefnisins voru þróaðar nýstárlegar aðferðir til að hjálpa matvöruverslunum að draga fram lífrænar vörur og auka sýnileika þeirra á skapandi hátt. Í Svíþjóð var efnt til litríkrar herferðar í verslunum og á samfélagsmiðlum til að ná betur til neytenda. Herferðin gekk út á þrjá meginþætti, það var, að gefa neytendum smakk í verslunum, setja upp stutt og hnitmiðuð skilaboð á veggspjöld og gólf verslana með staðreyndaþáttum um uppruna lífrænna matvæla ásamt því að breyta staðsetningum á vörum í verslunum til að ná enn frekar athygli neytenda.

Sænsk herferð3

Í fyrstu var ákveðið að leggja áherslu á fimm vöruflokka sem voru mjólk, egg, haframjöl, ávaxtadrykkur og reykt álegg úr baunum. Frá því að verkefnið hófst hefur sala á öllum vöruflokkum aukist markvert. Sem dæmi var ávaxtadrykkurinn Smakis og Saltå Kvarns haframjölið fært í ávaxta-, og barnamatshillurnar en við það jókst sala á haframjölinu um 65 prósent en á ávaxtadrykknum um 164 prósent án þess að vörurnar væru settar á tilboð. Þetta sýnir að verslanir geta aukið sölu á lífrænum vörum með því einfaldlega að breyta hillustaðsetningum þeirra.

/organicsweden.se