Það er óhætt að segja að hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi á Fljótsdalshéraði sitji sjaldan auðum höndum og eru í stöðugri nýsköpun og framþróun með fyrirtæki sitt Móður Jörð ehf. Á býlinu er stunduð korn-, og grænmetisræktun en einnig eru þar framleiddar tilbúnar hollustu-, og sælkeravörur sem margir þekkja úr matvöruverslunum. Því til viðbótar er boðið upp á veitingar og gistingu á staðnum yfir sumartímann.
Á síðasta ári bættu Eymundur og Eygló við fjórum gistirýmum í nýuppgerðu gömlu fjósi og hlöðu og eru gistirýmin nú sex talsins. Hráefni úr skógrækt staðarins var nýtt til hins ýtrasta, líkt og á veitingastaðnum Asparhúsinu, sem var reist árið 2016 og því geta gestir kynnst af eigin raun hvernig lífrænt býli getur boðið upp á heildstæða upplifun.

„Þetta er ákveðinn liður í þróunarsögunni hjá okkur, við höfum boðið upp á matarupplifun en þar að auki erum við nú að byggja upp gistiþjónustuna í sem mestu samræmi við þau gildi sem lífræn framleiðsla byggir á þar sem náttúruleiki er kjarninn í öllu efnisvali. Við byrjuðum að bjóða gistingu árið 2011 og erum að fara úr tveimur einingum í gistingu i sex og við finnum að saga lífrænnar ræktunar hér í Vallanesi hefur ákveðið aðdráttarafl. Við viljum skapa heildræna lífræna upplifun með matvæli, gistingu og framleiðslu,“ útskýrir Eygló en þau hjónin byrjuðu að gera upp gamla fjósið árið 2019 þar sem á neðri hæðinni bættist við framleiðslurými en efri hæðin státar af glænýjum svítum staðarins.

Búin að vinna sér inn fastan sess
Vallanes var meðal fyrstu býla á Íslandi sem hlaut vottun fyrir sína lífrænu ræktun á korni til manneldis ásamt grænmeti og jurtum. Þar að auki er sífelld þróun í framleiðslu á tilbúnum matvælum sem grundvallast ávallt í hráefni sem er ræktað á staðnum.
„Núna erum við að byrja níunda rekstrarárið á veitingastaðnum sem er orðinn rótgróinn. Um er að ræða grænmetisveitingastað og kaffihús þar sem boðið er upp á fjölbreytt grænmetisfæði s.s. bygg og baunir sem eru alltaf á matseðlinum og grænmeti eftir því hvað er verið að uppskera hverju sinni. Við erum með umfangsmikla og fjölbreytta ræktun sem nýtur sín vel í þessu formi og gestir kunna að meta en segja má að við höfðum jafnt til Íslendinga sem erlendra ferðamanna. Einnig er sögu að segja hér um lífræna ræktun og áhrif á umhverfið,“ segir Eygló og bætir við að heimsóknir hópa fari vaxandi.
„Við búum yfir mikilli sérstöðu því það er enginn grænmetisveitingastaður hér á landi sem gengur jafn langt í lífrænt vottuðu hráefni og staðbundnu. Við teljum það okkar hlutverk að kynna grænmetisfæði og kenna gestum að nota vörurnar okkar og njóta matvæla úr jurtaríkinu. Þetta hefur gengið afar vel og okkur vex ásmegin á hverju ári. Gestum finnst fátt betra en að koma hingað til okkar í friðsælt umhverfi og njóta þess að borða hollan og góðan mat og nú geta fleiri nýtt sér gistimöguleika staðarins og notið þægindanna sem hin nýju húsakynni bjóða upp á í hjarta býlisins.“

