Hæglega hægt að breyta úrgangi í verðmætan áburð

Cornelis Aart Meijles, ráðunautur í Loftslagsvænum landbúnaði hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að vegna takmarkana í regluverki um notkun á moltu sé erfitt um vik hérlendis að breyta lífrænum næringarefnum úrgangs í verðmætan áburð. Bændur í lífrænni ræktun hafi hvort eð er takmarkaðan aðgang að áburði sem þeir geta notað við ræktunina og að hér á landi mætti hugsa hugmyndafræði varðandi meðhöndlun og nýtingu á lífrænum (úrgangs)efnum upp á nýtt.

Cornelis hélt erindi á málþingi fagráðs í Lífrænum landbúnaði á dögunum undir yfirskriftinni: „Gæðastaðall fyrir áburðarefni og jarðvegsbætir úr lífrænum efnum til lífrænnar ræktunar.“
„Það er alltaf verið að tala um hvað við erum með óhemjumikið magn af lífrænum næringarefnum sem við köllum úrgang, sem illa eru nýtt en mætti umbreyta í verðmætan áburð eða jarðvegsbæti eins og moltu. Hingað til hefur ekki verið mikil eftirspurn eftir moltu sem gerir það að verkum að moltan sem framleidd er fer nokkuð oft á urðunarstað sem þekjuefni hérlendis. Þarna er slæm nýting á verðmæti sem felst í lífrænu efni,“ segir Cornelis.

Img 2499
Cornelis Aart Meijles, ráðunautur í Loftslagsvænum landbúnaði hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, segir að vegna takmarkana í regluverki um notkun á moltu sé erfitt um vik hérlendis að breyta lífrænum næringarefnum úrgangs í verðmætan áburð.

Hægt að endurskipuleggja kerfið
„Við erum með regluverk sem setur takmörkun á notkun á moltu við ræktun, hvort sem hún er lífræn eða hefðbundin. Það á sérstaklega við ef hún er búin til úr lífrænum heimilisúrgangi. Það þarf að vera öruggur með afurðina til að nýta til ræktunar, t.d. hvað varðar smitefni, illgresisfræ og mengun. Heppilegast væri að framleiða moltu sem næst upprunastað svo ekki þurfi að fara langar leiðir með moltuna. Með því að endurskipuleggja skipulag og samvinnu milli aðila við söfnun, meðhöndlun, markaðssetningu og dreifingu væri hægt að spara pening vegna flutnings “úrgangsefnis sem er verðlaust” til urðunar um langar vegalengdir,“ útskýrir Cornelis og bætir við:
„Þá væri hægt að fara styttri leið við að breyta úrganginum í afurð sem hægt er að nota við ræktun og spara um leið almannafé. Fyrir utan moltugerð hafa verið þróaðar aðrar meðhöndlunarleiðir til að umbreyta lífrænu úrgangsefni í áburð.  Víða í heiminum er það til dæmis gert með því að nota ánamaðka sem eru í raun litlar verksmiðjur sem eru mjög vel að sér við að umbreyta lífrænu efni í hágæðaáburð. Einnig er gerjunaraðferðin bokashi að ryðja sér til rúms en þá eru lífræn efni látin gerjast með því að blanda góðgerlum í massann. Ferlið fer fram undir plasti, vel varið veðri og vindum og hentar því íslenskum aðstæðum. Afurðina má geyma undir plastinu þangað til því er dreift án þess að gæðatap verði. Þar sem lífrænir bændur hafa takmarkaðan aðgang að áburði sem þeir mega nota myndi með þessum hætti bætast við ný úrræði við að útvega plöntum næringarefni og bæta jafnframt jarðvegsfrjósemi enn frekar ásamt því að binda meira kolefni. Gæðastimpill gæti þá orðið til þess að lífrænu áburðarefnin sem fengust með þessum meðhöndlunaraðferðum myndu einnig uppfylla kröfur til lífrænnar ræktunar. Þeir þyrftu þá ekki lengur að standa straum af sýnatöku af moltu til að ganga úr skugga um að nota megi hana við ræktunina.“

Bokashi2
Unnið að gerjunaraðferðinni bokashi sem er að ryðja sér til rúms en þá eru lífræn efni látin gerjast með því að blanda góðgerlum í massann. Ferlið fer fram undir plasti, vel varið veðri og vindum og hentar því íslenskum aðstæðum.

Þarf að skapa verðmæti í stað úrgangs
Cornelis bendir á að hægt væri að búa til öruggan markað hér á landi fyrir áburðarefni fyrir lífræna bændur en þá þurfi sveitarfélögin að vera með í ferlinu.
„Það væri frábært ef lífrænir bændur á ákveðnum svæðum næðu að sameinast um að finna aðila til að kaupa af þeim vottaðan áburð, til að minnka vinnuna, fyrirhöfn og kostnað fyrir hvern og einn bónda. Þegar búið væri að uppfylla kröfur svo að nýta megi áburðinn í lífræna ræktun, þá hefðu lífrænir bændur öruggan aðgang að áburði að því magni sem þeir þurfa. Þá gætu sveitarfélögin sparað sér flutning á úrgangi og þá yrði grundvöllur fyrir rekstraraðila,“ segir Cornelis og útskýrir jafnframt:
„Það þarf að hugsa þetta dæmi upp á nýtt því þetta er bara á vangaveltustigi eins og er. Það þarf að koma úrgangi í verð og í þessa hringrás. Ég hef reynslu af þessu hér í Hollandi þar sem ég hef komið að nokkrum slíkum samráðskeðjum með mismunandi hráefnum. Á Íslandi mætti endurskipuleggja samvinnu í verðmætakeðjunni með það að markmiði að spara vinnu, orku og hráefni því núna er þetta í raun peningur sem lekur út úr kerfinu og glatast en með því að nota þetta í vinnslu eins nálægt og hægt er væri hægt að skapa verðmæti í stað þess að búa til úrgang.“

Bokashi3
Tilraunir með bokashi-gerð á Íslandi sem Cornelis telur raunhæfan valkost hérlendis.