Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, er mjög meðvituð um hvaða matvæli hún setur ofan í sig og kýs alltaf lífrænt sé þess kostur. Hún hefur áhyggjur af því í hvaða átt Ísland stefnir þegar kemur að matvælaframleiðslu því hérlendis séu mikil tækifæri til að framleiða mun meiri lífrænt ræktaðar vörur en gert er í dag og jafnvel flytja út, enda hafi landið ímynd hreinleika úti í hinum stóra heimi.
„Ég fékk fyrst áhuga á lífrænum vörum um leið og ég heyrði að þær væru til. Þegar ég var barn að alast upp í Jerúsalem voru fíkjutré í garðinum hjá afa mínum sem ég klifraði upp í á hverjum degi og bjó næstum því í trjánum. Ég man vel eftir bragðinu, samanborið við fíkjur sem við fáum í dag,“ segir Dorrit.
Tækifærin eru til staðar
Dorrit hefur ekki áhyggjur af Evrópu eða öðrum löndum heldur af Íslandi sem hún segir hafa einstaka stöðu á heimsvísu þegar kemur að framleiðslu matvæla.
„Því miður missa ávextir og grænmeti næringargildi sem og bragð þegar þeir hafa ferðast um langan veg og er ekki mjög umhverfisvænt. Þó að ég sé ekki sérfræðingur sé ég enga ástæðu fyrir því að við getum ekki notað samkeppnishæft raforkuverð og pláss til að rækta meira grænmeti og ávexti í gróðurhúsum hér á landi. Hér eru tækifæri til staðar til að flytja jafnvel slíkar vörur erlendis þar sem íslenskar vörur myndu án efa fara í hærri verðflokk en margar aðrar,“ útskýrir Dorrit og segir jafnframt:
„Ísland hefur einstaka stöðu í heiminum vegna hreinleikans. Ég er sannfærð um og veit að við getum framleitt frábærar vörur. Ekki aðeins til staðbundinnar neyslu heldur einnig til útflutnings. Innflutningur varnarefna til Íslands er óhagkvæmur og eyðuleggur jarðveginn okkar. Fyrirtækið Vaxa til dæmis stendur sig frábærlega í lífrænni ræktun í gróðurhúsum, allur ágóði verður eftir hér á landi, rennur til landsins, neytenda sem og ríkissjóðs Íslands. Íslenskar verslanir eru fullar af fallegum blómum sem ræktuð eru hérlendis og ég velti því oft fyrir mér af hverju við getum ekki gert eins með grænmeti, það er að bjóða upp á meira af lífrænu, hollu og fjölbreyttu grænmeti.“
Veljum réttan og heilnæman mat
„Ég trúi því ekki að það sé hlutverk stjórnvalda að mennta fullorðið fólk, neytendur eiga að vera upplýstir um hvað þeir láta ofan í sig og velja heilnæmustu vörurnar. Það er hlutverk stjórnvalda að leggja aðeins hærri skatta á innfluttar vörur og þá sérstaklega ruslfæði til að reyna að koma í veg fyrir að íbúar landsins neyti þeirra. Þessi leið myndi draga úr álagi á kerfið og á endanum draga úr ráðstöfun á fé skattgreiðenda,“ segir Dorrit og bætir við:
„Ég er mjög varkár með hvers ég neyti því matvæli hafa ekki eingöngu áhrif á heilsuna heldur einnig á andlega líðan. Ég greindist með sjálfsofnæmissjúkdóm þegar ég var 60 ára gömul og þá var einn þáttur í greiningarferlinu að fara yfir næringu. Ég er sannfærð um að hægt væri að koma í veg fyrir marga kvilla eða minnka vægi þeirra með því að velja réttan og heilnæman mat. Ef fólk almennt væri meðvitaðra um hvað það borðar væri hægt að koma í veg fyrir marga sjúkdóma og heilbrigðiskerfið gæti sparað fjármagn og tíma.“