Skýrsla rannsóknarverkefnisins Lífræn ræktun fyrir umhverfi og samfélag undir forystu doktors Jürn Sänders hjá Thünen stofnuninni og Jürgen Heß við háskólann í Kassel í Þýskalandi, sem kom út árið 2019, sýna ótvíræða kosti lífrænnar ræktunar á mörgum sviðum. Rannsóknarverkefnið var styrkt af þýska matvæla- og landbúnaðarráðuneytinu, sem hluti af alríkisáætlun landsins um lífrænan landbúnað og annars konar sjálfbæran landbúnað.
Lífræn ræktun er talin sérstaklega auðlindasparandi og umhverfisvænt búskaparform. Þetta mat byggir á fjölmörgum rannsóknum sem gerðar hafa verið síðastliðin 30 ár. Í rannsókninni var lagt mat á félagslega þætti lífrænnar ræktunar á sviði vatnsverndar, frjósemi jarðvegs, líffræðilegrar fjölbreytni, loftslagsverndar, loftslagsaðlögunar, auðlindanýtingar og dýravelferðar á grundvelli yfirgripsmikilla greininga á vísindalegum útgáfum.
Mikilvægi umhverfis-, og auðlindaverndar
Við mat á niðurstöðum var stuðst við 528 rannsóknir með 2816 samanburðarpörum frá árunum 1990 til 2018. Í 58 prósentum tilfella var vísbending um að lífrænn landbúnaður hefði kosti framyfir hefðbundinn landbúnað á sviði umhverfis- og auðlindaverndar. Í 35 prósent samanburðarparanna höfðu lífrænar ræktunaraðferðir yfirburði en engin skýr mynd kom upp þegar kom að dýravelferð.
Mikilvægustu niðurstöður rannsóknarinnar þegar kom að einstökum umhverfisþáttum var að lífrænn landbúnaður getur minnkað nítratskolun um 39 prósent og því mikilvægur til verndunar grunnvatns og eigin yfirborðsvatns. Einnig kom í ljós að í 70 prósentum af 292 samanburðarpörum voru áhrif köfnunarefnis og varnarefna á grunn-, og yfirborðsvatn mun lægri í lífrænum landbúnaði heldur en hefðbundnum.
Líffræðilegur fjölbreytileiki og loftslagsáhrif
Í 62 prósentum af samanburðarpörunum tengdist lífrænn landbúnaður lægri súrnun í gróðurjarðvegi og sýndi jarðvegsfrjósemi skýra kosti lífræns landbúnaðar. Greinilega var hægt að sýna fram á jákvæð áhrif lífræns búskapar á líffræðilegan fjölbreytileika fyrir þá tegundahópa sem rannsakaðir voru. Að meðaltali var tegundafjöldi á ræktanlegu landi 95 prósentum hærri undir lífrænni stjórnun.
Samanburður á losun gróðurhúsalofttegunda í jarðvegi frá lífrænum og hefðbundnum landbúnaði í tempruðu loftslagi sýndi jákvæð áhrif í lífrænum búskap. Í ljós kom að lífrænt stýrður jarðvegur hefur 10 prósent hærra lífrænt kolefnisinnihald og hærri árlega kolefnisbindingu heldur en í hefðbundnum landbúnaði. Losun köfnunarefnisoxíðs er að meðaltali 24 prósentum lægri samkvæmt rannsóknum. Einnig kom í ljós að mikilvægir eiginleikar sem stuðla að rofvörnum og flóðavernd höfðu sambærileg eða betri gildi undir lífrænni stjórnun.
Mikilvægt kerfi í nútímasamfélagi
Auðlindanýting var rannsökuð með því að nota köfnunarefnisnýtni og orkunýtni og sýndu niðurstöður að verulega lægra köfnunarefnis-, og orkuinntak var í lífrænni ræktun. Í 46 prósentum af samanburðarpörunum var köfnunarefnisnýtni marktækt meiri við lífræna ræktun og 58 prósentum fyrir orkunýtni.
Við rannsóknir á dýravelferð gáfu niðurstöðurnar ekki skýra mynd af því hvort lífræn kerfi séu velferðarvænni heldur en hefðbundin. Samanburðarrannsóknir einblína aðallega á stök mál og þá sérstaklega mjólkurkýr. Heilsufar dýra var ekki verulega frábrugðið nema halti og fótameiðsli sem gaf til kynna að stjórnunarþættir skipti meira máli en sjálft framleiðslukerfið. Þær rannsóknir sem til eru benda til tilfinningalegs ávinnings í atferli dýra í lífrænu búfjárhaldi vegna meira svæðis sem dýrin hafa og aðgangs að haga.
Niðurstaða rannsóknarteymisins var sú að lífrænn landbúnaður getur minnkað ýmis umhverfisvandamál í nútímasamfélagi og því sé kerfið mikilvægt til að leysa ýmis flókin samtímaviðfangsefni þegar kemur að umhverfi og auðlindum, enda sé það lykiltækni til sjálfbærrar landnotkunar.